Þúsundir tóku þátt í mótmælagöngum í þýskum borgum í dag þar sem háu leiguverði var mótmælt undir slagorðinu „leigubrjálæði“ eða Mietwahnsinn.
Skipuleggjendur segja að 6 þúsund hið minnsta hafi mætt á Alexandertorg í Berlín fyrr í dag og þaðan lá leiðin í hverfið Kreuzberg þar sem margir innflytjendur búa. Hverfið er nýjasta fórnarlamb fasteignafyrirtækja sem vilja græða sem mest á stuttum tíma með því að kaupa upp nánast allar byggingar sem þeir komast yfir, rífa þær og byggja lúxusíbúðir í staðinn.
„Ekki eyðileggja íbúðarhæf hús,“ kölluðu mótmælendur í Berlín í morgun og töluðu um fasteignahákarlana. Jafnframt er verið að safna undirskriftum þar sem farið er fram á að íbúar í Berlín fái að greiða atkvæði um að borgaryfirvöld taki byggingar eignarnámi sem fasteignafélögin hafa keypt. Um er að ræða yfir þrjú þúsund íbúðir.
Talað er um félög eins og Deutsche Wohnen og Vonovia, sem hafa keypt þúsundir húsa í Berlín en fasteignaverð er víðast hvar hærra í öðrum höfuðborgum Evrópu. Fyrirtækin kaupa húsin, jafna þau við jörðu og byggja lúxusíbúðir sem síðan eru leigðar út fyrir háar fjárhæðir.
Þetta hefur vakið mikla reiði meðal almennings sem telur sig ekki lengur hafa ráð á að búa í borginni. Meðalverð húsaleigu í Berlín hefur hækkað umtalsvert síðustu misseri og segja forsvarsmenn mótmælanna að stjórnvöldum hafi mistekist að stemma stigu við þessari þróun.