„Við reyndum allt til að bjarga félaginu,“ segir Þór Bæring Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Gaman-Ferða, í samtali við mbl.is. Ferðaskrifstofan hefur skilað inn ferðaskrifstofuleyfi sínu og er hætt starfsemi.
Þór tekur fram að ferðaskrifstofan hafi ákveðið að fara þessa leið, að skila inn leyfinu, til að viðskiptavinir hlytu ekki skaða af. Í tilkynningu frá Gaman-Ferðum kom fram að fall WOW air, sem átti 49% hlut, varð félaginu mun þyngri baggi en gert hafði verið ráð fyrir.
„Við vorum með ansi mikið í gegnum WOW air og þeirra flug,“ segir Þór. Þegar flugfélagið fór í þrot í síðasta mánuði hafi verið of dýrt fyrir Gaman-Ferðir að finna flug fyrir viðskiptavini sína með öðrum flugfélögum.
„Við keyptum flug af öðrum flugfélögum og þurftum að finna aðrar leiguvélar fyrir þær ferðir sem áttu að vera með WOW air. Þetta var allt miklu dýrara og gerði það að verkum að við þurfum að biðja um rekstrarstöðvun,“ segir Þór.
Hann tekur fram að Gaman-Ferðir hafi borið lögbundnar tryggingar sem grípi inn í og endurgreiða þeim sem ekki komist í fyrirhugaða ferð. Farþegar þurfa að gera kröfu í tryggingaféð rafrænt í gegnum þjónustugátt Ferðamálastofu til þess að fá endurgreiðslu. Farþegar geta einnig haft samband við Ferðamálastofu.
Þór segir að rekstrarstöðvunin hafi ekki áhrif á farþega á vegum Gaman-Ferða sem staddir eru erlendis á vegum fyrirtækisins og það þurfi því ekki að skipuleggja neinar björgunaraðgerðir.
Alls störfuðu 14 hjá Gaman-Ferðum en ferðaskrifstofan var stofnuð árið 2012 af Þóri Bæring Ólafssyni og Braga Hinrik Magnússyni. Nýlega bættust við Berglind Snæland og Ingibjörg Eysteinsdóttir. WOW air keypti helmingshlut í ferðaskrifstofunni árið 2015 en fyrirtækin höfðu unnið saman frá stofnun WOW air.
„Þetta er virkilega leiðinlegt og erfitt satt að segja. En þetta hafði bara svona mikil áhrif á okkur og því miður fór þetta svona,“ segir Þór og bætir við að allt hafi verið reynt til að bjarga fyrirtækinu:
„Við reyndum að tala við samstarfsaðila, fjárfesta og fleira en það tókst því miður ekki. Við reyndum allt.“