Ferðaskrifstofan Gaman-Ferðir hefur skilað inn ferðaskrifstofuleyfi sínu og hætt starfsemi. Í tilkynningu frá ferðaskrifstofunni segir að fall WOW air, sem átti 49% hlut, hafi orðið félaginu mun þyngri baggi en gert hafði verið ráð fyrir.
„Þótt félagið hafi staðið vel að vígi varð orðið ljóst að lausafjárstaða félagsins næstu 6 mánuðina yrði ekki nægjanlega sterk til þess að réttlæta áframhaldandi starfsemi og mun hreinlegra að stöðva reksturinn áður en viðskiptavinum og starfsfólki yrði gerður fjárhagslegur skaði,“ segir í tilkynningu.
Þá er bent á að Gaman-Ferðir báru lögbundnar tryggingar sem munu grípa inn í og endurgreiða þeim sem komast ekki í fyrirhugaða ferð. Farþegar þurfa að gera kröfu í tryggingaféð rafrænt í gegnum þjónustugátt Ferðamálastofu til þess að fá endurgreiðslu. Farþegar geta einnig haft samband við Ferðamálastofu.
Ferðaskrifstofan Gaman-Ferðir var stofnuð árið 2012 af Þór Bæring Ólafssyni og Braga Hinrik Magnússyni. Nýlega bættust við Berglind Snæland og Ingibjörg Eysteinsdóttir. WOW air keypti helmingshlut í ferðaskrifstofunni árið 2015 en fyrirtækin höfðu unnið saman frá stofnun WOW air.
Þór Bæring Ólafsson starfaði sem framkvæmdastjóri Gaman-Ferða og Bragi Hinrik Magnússon sem forstöðumaður hópadeildar. Þór og Bragi Hinrik hafa starfað í ferðageiranum síðan 2003 en þá stofnuðu þeir ferðaskrifstofuna Markmenn. Árið 2005 keypti svo Iceland Express ferðaskrifstofuna Markmenn og í kjölfarið breyttist nafnið í Express-Ferðir.
Þegar WOW air var stofnað í lok árs 2011 ákváðu þeir Þór og Bragi að stofna nýja ferðaskrifstofu og gerðu samstarfssamning við WOW air. Til að byrja með voru fótboltaferðir og tónleikaferðir í aðalhlutverki en hægt og rólega jókst vöruúrvalið og þegar mest var bauð félagið upp á sólarferðir, fótboltaferðir, tónleikaferðir, borgarferðir, golfferðir, skíðaferðir, æfingaferðir fyrir íþróttafélög, íþróttamót, auk ýmissa sérferða og hópferða fyrir allar gerðir af hópum.
Fréttin hefur verið uppfærð.