Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, hefur sagt starfi sínu lausu. Stjórn bankans og Höskuldur hafa komist að samkomulagi um að hann sinni starfi bankastjóra fram til næstu mánaðamóta.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka.
Hagnaður bankans á síðasta ári nam tæpum 7,8 milljörðum króna, sem er nærri því helmingi minni hagnaður en á síðasta ári, þegar hagnaðurinn var 14,4 milljarðar króna. Á sama tíma hefur arðsemi bankans dregist saman, úr 6,6% í 3,7% milli ára.
„Nú eru um níu ár síðan ég kom til starfa hjá bankanum. Óhætt er að segja að verkefnin hafi verið fjölbreytt á þessum árum,“ er haft eftir Höskuldi í tilkynningunni. Hann segir að framtíðarsýn bankans sé skýr og að hann sé í forystu þegar komi að þróun fjármálaþjónustu.
Sviptivindar í flugrekstri hafa einnig haft áhrif á afkomu bankans, en Arion banki færði niður tæplega þrjá milljarða króna í ábyrgðum og lánveitingum vegna gjaldþrots flugfélagsins Primera Air, sem var í viðskiptum hjá bankanum. Óljóst er hversu háa fjármuni bankinn mun þurfa að afskrifa vegna falls WOW air.
Afkoma Arion banka á þriðja ársfjórðungi ársins 2017 var neikvæð um 100 milljónir króna samanborið við 7,5 milljarða króna hagnað á sama tímabili 2017. Það skýrist af niðurfærslum á lánum, kröfum og öðrum eignum sem tengjast United Silicon og nema alls 3,7 milljörðum króna á fjórðungnum og 4,8 milljörðum á fyrstu níu mánuðum ársins.
„Bankinn er fjárhagslega sterkur með traustan grunnrekstur og vel í stakk búinn fyrir það sem framtíðin ber í skauti sér. Ég tel þetta vera rétta tímann til að fela öðrum að taka við keflinu,“ er enn fremur haft eftir Höskuldi.
Brynjólfur Bjarnason, stjórnarformaður bankans, þakkar Höskuldi fyrir starf sitt í bankanum. Stjórn bankans virði ákvörðun hans um að nú sé góður tímapunktur til að láta af störfum.