JetBlue tilkynnti á miðvikudag að félagið hygðist hefja beint flug frá New York og Boston til London árið 2021. Segist félagið miða við að fleiri ferðir verði daglega frá báðum borgum og verður flogið með Airbus A321LR vélum. Ekki hefur verið ákveðið til hvaða flugvalla í London verður flogið. Þá er ekki ljóst hvaða áhrif þessar flugferðir lággjaldaflugfélagsins geta haft á íslenskan markað.
Verði af áformum félagsins fjölgar ferðum milli Ameríku og Evrópu án viðkomu á Íslandi og vekur athygli að félagið sé lággjaldafélag sem, að eigin sögn, mun leggja áherslu á að verða valkostur fyrir bæði almenna ferðamenn og þá sem ferðast vegna vinnu.
„Vöxtur inn á evrópskan markað er eðlilegt næsta skref fyrir JetBlue með hliðsjón af borgaráætlun félagsins og er London stærsti áfangastaðurinn sem JetBlue hefur til þessa ekki þjónustað,“ segir í tilkynningunni.
„Markaðsaðgangur fyrir minni flugfélög hefur aldrei verið takmarkaðri. [...] Fáum við tækifæri til þess að keppa [við stærri félög] getur JetBlue haft veruleg áhrif á verðlækkanir og aukið umferð,“ er haft eftir Joanna Geraghty, rekstrarstjóra JetBlue, í tilkynningu félagsins. Samkvæmt svari JetBlue við fyrirspurn Morgunblaðsins hafði þrot WOW ekki áhrif á ákvörðunina og er tekið fram að þetta hafi verið til skoðunar í lengri tíma.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.