Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri WOW air, segist ekkert vita um nafnlausu vefsíðuna hluthafi.com þar sem óskað er eftir hluthöfum til að endurreisa WOW.
Frá þessu er greint á vef RÚV.
Ekki kemur fram hverjir standi að baki síðunni en þar eru einstaklingar og fyrirtæki hvött til að leggja fram „lítilsháttar hlutafé“ í krafti fjöldans og tryggja rekstur WOW air til framtíðar.
Fram kemur að þeir sem standi að baki síðunni séu fyrrverandi viðskiptavinir WOW air og annarra flugfélaga. „Við vitum að ef samkeppni minnkar eða fellur niður í samkeppnisumhverfi þá töpum við til lengri tíma,“ segir meðal annars á síðunni.
Einnig kemur fram í frétt RÚV að netafbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu muni skoða síðuna á morgun.