„Við áttum í stökustu vandræðum með að halda síðunni gangandi á tímabili,“ segir Guðmundur Yngvason, einn þeirra sem standa að vefsíðunni hluthafi.com sem ætlað er að stofna félag um lággjaldaflugfélag.
Guðmundur segir að til standi að setja upp teljara á vefsíðunni sem sýnir hversu margir hafi skráð sig sem hugsanlega hluthafa. Nýskráningar hafi mest farið upp í 50 á mínútu síðan vefurinn var settur í loftið og tilgangur hans auglýstur.
„Það er ekki flóknara en svo að almenningur í landinu hefur áhuga á tryggðar séu samgöngur á milli staða á sæmlegu verði,“ segir Guðmundur.
Með fréttatilkynningu sem send var mbl.is óska talsmenn eftir fundi með Skúla Mogensen, stofnanda WOW air. Guðmundur segir þó ekki víst að Skúli sé heppilegur rekstraraðili nýs eða endurreists félags, en að alltaf hafi legið ljóst fyrir að hann yrði fyrstur að borðinu.
Guðmundur vill taka fram að forsvarsmenn hluthafa.com séu alfarið ósammála túlkun Fjármálaeftirlitsins þess efnis að um sé að ræða verðbréfaviðskipti. Þeir fari eftir hlutafélagalögum.
„Aðstandendur hluthafa.com vilja koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem hafa skrifað sig fyrir áskrift að nýjum rekstri lággjaldaflugfélags,“ segir í tilkynningu hluthafa.com. Þá fullyrðir Guðmundur að sérfræðingar, svo sem flugrekstraraðilar með flugrekstrarleyfi, hafi sýnt verkefninu áhuga.