Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, hefur sagt starfi sínu lausu. Þetta staðfestir Þórarinn í samtali við mbl.is. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig frekar að svo stöddu, segir að von sé á fréttatilkynningu um málið.
Vísir greindi fyrst frá.
„Þetta er staðfest og ég býst við að vinna út þennan mánuð,“ segir Þórarinn og bætir við að von sé á tilkynningunni upp úr hádegi. Hann hefur starfað sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins frá árinu 2005, en ári síðar flutti verslun IKEA í Kauptún í Garðabæ.
Hann vakti nýverið mikla athygli þegar hann var með erindið „Vítahringur verðhækkana á veitingum“ á morgunverðarfundi ASÍ. Þar gagnrýndi hann harðlega verðlagningu sumra veitingastaða og bakaría.
Þórarinn starfaði í 10 ár sem bakari áður en hann kom að stofnun Dominos á Íslandi, eða frá 1993 til 2005. Síðan þá hefur hann stýrt IKEA.