Aðfararbeiðni hefur verið lögð fram í Héraðsdómi Reykjaness þar sem þess er krafist að Isavia láti af hendi farþegaþotu sem fyrirtækið kyrrsetti hinn 28. mars síðastliðinn til tryggingar nærri tveggja milljarða skuld WOW air við Keflavíkurflugvöll.
Gerðarbeiðandi er eigandi vélarinnar, bandaríska flugvélaleigufyrirtækið Air Lease Corporation.
Í aðfararbeiðninni, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, er fullyrt að Isavia skorti lagaheimild til að halda vélinni. Er þar m.a. bent á að WOW air hafi ekki haft vélina í sinni vörslu í kjölfar þess að félagið var úrskurðað gjaldþrota. Þá hafi ALC ekki verið tilkynnt um kyrrsetninguna fyrr en mörgum klukkustundum eftir að WOW air bæði lagði inn flugrekstrarleyfið og úrskurður um gjaldþrot lá fyrir.
Í rökstuðningi með beiðni um aðför að vélinni segja lögmenn ALC að Isavia hafi ekki haft heimildir skv. eigin reglum til þess að veita WOW air lánafyrirgreiðslu með þeim hætti sem gert var og að sú framganga stjórnenda fyrirtækisins kunni mögulega að baka þeim bótaábyrgð. Þá segir í aðfararbeiðninni að framganga Isavia kunni að leiða til þess að flugvélaleigusalar muni forðast, takmarka eða jafnvel banna leigutökum véla sinna að beina þeim um flugvöllinn í Keflavík. Það byggir ALC á þeirri fullyrðingu að reynslan af samskiptum við Isavia sýni að ekki sé tryggt að farið sé að lögum og birtum reglum.
Heimildir Morgunblaðsins herma að búið sé að boða til fyrirtöku í héraðsdómi næstkomandi þriðjudag. Fallist dómurinn á kröfur ALC mun Isavia sitja uppi með tveggja milljarða kröfu á hendur WOW air án veðandlags.