Isavia telur sig hafa fullnægjandi lagaheimildir til kyrrsetningar á flugvél Air Lease Corporation vegna skuldar umráðaaðilans WOW air og segir dómafordæmi í málinu.
Þetta kemur fram í skriflegu svari Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia, við fyrirspurn mbl.is. Greint var frá því í Morgunblaðinu í dag að ALC hefði lagt fram aðfararbeiðni fyrir Héraðsdómi Reykjaness þar sem þess er krafist að Isavia láti af hendi farþegaþotu sem fyrirtækið kyrrsetti 28. mars til tryggingar nærri tveggja milljarða skuldar WOW air við Keflavíkurflugvöll.
Í svari Guðjóns segir að ákvörðun Isavia um kyrrsetninguna hafi verið grundvölluð á heimild í loftferðarlögum. Þá sé dómafordæmi frá 2014 í máli Holiday Czech Airlines, þar sem Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Isavia af kröfum flugfélagsins um endurgreiðslu á lendingar-, stæðis-, flugverndar-, farþega- og innritunargjöldum, auk skaðabóta vegna stöðvunar Isavia á flugvél Holiday Czhech Airlines, sem flugfélagið Iceland Express hafði á leigu.