365 miðlar, félag í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, hefur aukið við hlut sinn í Skeljungi og á félagið nú 4,32% hlutabréfa í olíufélaginu, auk þess sem 365 miðlar hafa gert framvirka samninga um kaup á 5,69% í félaginu til viðbótar. Er því samtals um að ræða 10,01% í Skeljungi.
Með viðskiptunum fer hlutur 365 miðla yfir 10% og þurfti því að tilkynna um viðskiptin til Kauphallarinnar. Fyrir tæplega tveimur vikum síðan var greint frá því að 365 miðlar hefðu keypt 3,02% í Skeljungi og gert framvirka samninga um kaup á 4,64% hlut. Samtals var um að ræða viðskipti upp á 1.300 milljónir.
Síðan þá hefur félagið keypt 1,30% til viðbótar og gert framvirkan samning upp á 1,05%. Miðað við markaðsvirði bréfa Skeljungs í dag í Kauphöllinni er heildareign 365 miðla metin á 1,74 milljarða.
Samkvæmt lista yfir stærstu hluthafa Skeljungs, sem finna má á heimasíðu félagsins og uppfærður var við lok viðskipta á miðvikudaginn fyrir páska, var Gildi stærsti hluthafi Skeljungs með 9,2% hlut. Með tilliti til framvirku samninganna eru 365 miðlar því orðnir stærsti eigandi Skeljungs.