Skiptastjórar þrotabús WOW air skoða nú hvort tilefni sé til þess að rifta samkomulagi sem Arion banki og WOW gerðu með sér í fyrra þar sem ákveðið var að breyta fimm milljóna dollara yfirdráttarláni í skuldabréf að sömu fjárhæð í flugfélaginu.
Það var gert við skuldabréfaútboð WOW air síðasta haust, en Markaðurinn greinir frá þessu í dag. Um er að ræða 550 milljóna króna skuld á þáverandi gengi. Skiptastjórarnir skoða nú hvort tilefni sé til að rifta þessu samkomulagi, en ráðgjafafyrirtækið Deloitte aðstoðar þrotabúið og á enn eftir að leggja mat á það hvort grundvöllur sé fyrir riftun.
Með þessu samkomulagi lagði Arion banki félaginu ekki til nýtt fjármagn í skuldabréfaútboðinu, en breytingin á yfirdráttarláni í skuldabréf nam nærri tíu prósentum af heildarstærð útboðsins. Þá er talið að innan við helmingur af þeim 50 milljónum evra sem söfnuðust í útboðinu hafi verið nýtt fjármagn.
Í frétt Markaðarins segir að margir fjárfestar sem komu með nýtt fjármagn inn í félagið í skuldabréfaútboðinu séu ósáttir við ráðstöfun Arion banka og WOW air. Þeir hefðu líklega ekki komið inn með nýtt fjármagn ef þeir vissu að hluti útboðsins var afgreiddur með þeim hætti að breyta yfirdráttarláni í skuldabréf.
Skuldabréfaeigendur eru sagðir vilja láta reyna á ábyrgðartryggingar stjórnenda WOW air vegna mögulegrar persónulegrar ábyrgðar þeirra í málinu.