Stofnuðu bílaleigu í bílskúr eftir menntó

Alexander Haraldsson og Guðmundur Hlífar Ákason stefna á að leigja …
Alexander Haraldsson og Guðmundur Hlífar Ákason stefna á að leigja 300 bíla út í sumar. mbl.is/Eggert

Alexander Haraldsson og Guðmundur Hlífar Ákason stofnuðu bílaleiguna Lotus Car Rental árið 2014, aðeins 19 ára gamlir en þá um vorið urðu þeir stúdentar frá Verzlunarskólanum. Á þeim tímapunkti voru Alexander og Guðmundur komnir með leið á bókunum og vildu gera eitthvað nýtt. Þar hefst saga Lotus Car Rental sem í sumar verður með rúmlega 300 bíla í útleigu og nýjan flota en félagið skilaði rekstrarhagnaði (EBITDA) upp á 184 milljónir króna í fyrra.

Fyrirtækið er staðsett í Keflavík en þeir félagar hyggjast í haust hefja byggingu á 1.400 fermetra húsi við Flugstöð Leifs Eiríkssonar fyrir starfsemina.

Beyglaður bíll á uppboði

„Þetta byrjaði þannig að við keyptum tvo bíla á uppboði, Volvo S60 og BMW 1. Fyrst ætluðum við bara að gera þá upp með smá hagnaði en svo kom hugmyndin að bílaleigunni. Það hafði verið mikil gróska í ferðamannageiranum og við hugsuðum einfaldlega með okkur: Af hverju ekki bara að prófa að leigja þá út? Ég hafði sjálfur nýlega keypt mér nýjan Volkswagen Up og Guðmundur átti einnig bíl,“ segir Alexander í samtali við Morgunblaðið.

Þeir félagar settu því upp einfalda Wordpress-síðu. „Hún var mjög frumstæð til að byrja með en það var alla vega hægt að bóka bíla og greiða fyrir þá,“ útskýrir Alexander og nefnir einnig að þeir hafi farið þá leið að auglýsa starfsemina á Google en sú leið hefur reynst þeim vel þar sem 80-90% af bókunum fyrirtækisins eru í dag gerðar beint í gegnum vefsíðu þeirra og kemst fyrirtækið því hjá því að greiða erlendum bókunarsíðum umboðstekjur.

Hinir ungu athafnamenn unnu langa vinnudaga á þessum tíma sem fóru ekki undir 12 tíma. Auðvitað var ekki um neitt helgarfrí að ræða.

„Þetta var alveg svakalegt til að byrja með. Við byrjuðum í bílskúrnum heima hjá Guðmundi í Safamýrinni fyrstu sex mánuðina. Þetta var 25 fermetra bílskúr og svo þrifum við bílana úti á plani. Guðmundur er sveitastrákur frá Bakkafirði, hafði farið á sjó og kunni hitt og þetta. Þessi Volvo sem við keyptum á bílauppboðinu var svolítið klesstur en Guðmundur tók sig til og sprautaði hann bara í bílskúrnum, lagaði hann allan til og gerði flottan.“

Til að byrja með var bílaleigan hugsuð fyrir sparneytnari ferðamenn enda um gamla bíla að ræða.

„Við höfðum ekki möguleika á því að fara tvítugir niður í banka og fá bílalán til þess að kaupa nýja bíla. Fyrstu tvö árin staðgreiddum við alla bíla sem við keyptum. Eldri bíla. Þá vorum við að stíla inn á sparneytinn kúnnahóp. Það var fínn markaður fyrir það og er enn í dag,“ segir Alexander.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK