Kínverskir ferðamenn vörðu hvað hæstum fjárhæðum miðað við höfðatölu á dag hér á landi á síðasta ári. Fram kemur í fréttatilkynningu frá Íslandsbanka að þetta sé meðal þess sem fram komi í nýrri skýrslu bankans um ferðaþjónustuna sem til stendur að kynna á Hilton Reykjavík Nordica á fimmtudagsmorguninn.
„Svo virðist að minnsta kosti vera þegar litið er til þeirra þjóða sem skilja hér eftir mest heildarverðmæti. Þá eru útgjöld Bandaríkjamanna, sem eru um þriðjungur allra ferðamanna hér á landi, einnig yfir meðaltali. Til samanburðar voru Kínverjar 3,9% af heildarfjölda ferðamanna í fyrra en útgjöld þeirra 6,2%,“ segir ennfremur.
Bandarískir ferðamenn væru fyrir vikið að öllum líkindum þeir sem skiluðu hvað mestum gjaldeyristekjum til landsins á heildina litið. „Á móti kemur að kannanir benda til að gestir frá Norður-Ameríku dvelji að meðaltali skemur en aðrir og það veldur því að heildarneysla þeirra er minni sem því nemur í samanburði við aðra. Dvalartími ferðafólks frá Kína, hinum norrænu ríkjunum og Bretlandi er einnig alla jafna styttri en gengur og gerist að jafnaði. Aðrir Evrópubúar dvelja hér lengur.“
Þá segir í fréttatilkynningunni að auk kynningar skýrslunnar munu þau Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, nýsköpunar og iðnaðar, og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group taka þátt í umræðum á fundinum.