Samtals voru gerðar kröfur í þrotabú Smálána ehf. upp á 171 milljón króna, en félagið var úrskurðað gjaldþrota 2016. Almennar kröfur voru um 124,5 milljónir, veðkröfur 41,6 milljónir og búskröfur 4,8 milljónir.
Samþykktar kröfur af skiptastjóra voru samtals 99,5 milljónir og voru þær samþykktar sem almennar kröfur. Fengu kröfuhafar 62,14% greitt upp í samþykktar kröfur.
Smálán var í eigu félagsins DCG ehf., sem var í eigu Leifs Alexanders Haraldssonar. Félagið tengdist öðru smálánafyrirtæki sem hét Kredía ehf. Árið 2013 keypti félagið Credit one bæði Kredía og Smálán og var Mario Megela skráður stjórnandi þeirra. Félögin eru í dag rekin í Danmörku undir merkjum danska fyrirtækisins Ecommerce 2020 ApS.
Kredía var úrskurðað gjaldþrota 2016, en engar eignir fundust í búi þess við skiptalok fyrr á árinu. Samtals voru lýstar kröfur í búið 252 milljónir.