Hagnaður Össurar nam 14 milljónum Bandaríkjadala (1,7 milljörðum íslenskra króna) á fyrsta ársfjórðungi og jókst um 37% frá sama tímabili í fyrra. Hagnaður sem hlutfall af sölu nam 9% samanborið við 7% af sölu á sama tímabili í fyrra.
Sala nam 160 milljónum Bandaríkjadala (19 milljörðum íslenskra króna). Vöxtur í staðbundinni mynt nam 19% og innri vöxtur var 8%. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, segir í fréttatilkynningu að söluvöxtur á fyrsta ársfjórðungi var góður á öllum mörkuðum með stoðtækjareksturinn og Asíumarkað í fararbroddi.
„Við erum ánægð að sjá hátæknivörur okkar leiða söluvöxtinn og má þar sérstaklega nefna nýja stoðtækið okkar með gervigreind, PROPRIO FOOT®, sem var settur á markað í fjórðungnum og hefur fengið góðar viðtökur. Rekstrarhagnaður félagsins jókst með aukinni sölu á hátæknivörum, rekstrarhagræðingu og stærðarhagkvæmni. Sjóðstreymi í fjórðungnum var gott þegar haft er í huga að fyrsti fjórðungur ársins er ávallt sá lakasti með tilliti til framlegðar og sjóðstreymis.“