Gonzalez-fjölskyldan sem er búsett í Chicago ætlaði að fara til Ítalíu og Íslands nú í vor en draumaferðin varð að martröð þegar í ljós kom að flugfélagið var gjaldþrota. Rætt var við fjölskylduna á NBC-sjónvarpsstöðinni í gær.
Fjölskyldan ætlaði að ferðast með WOW air en aðeins þremur dögum fyrir brottför fengu þau upplýsingar um að ekkert yrði af ferðalaginu. „Ég fór í tölvuna mína og sá þetta stóra gula skilti um að þeir hafi stöðvað alla starfsemi félagsins,“ segir Jennifer Gonzalez. „Ég fékk ekki tölvupóst né tilkynningar á samfélagsmiðlum. Ég hafði ekki hugmynd,“ segir hún.
Ferðalagið var jólagjöf frá eiginmanninum og ætlaði öll fjölskyldan að fara saman. „Ég skil ekki hvernig þetta er mögulegt. Hvernig flugfélag getur gert þér þetta,“ segir hún.
„Jafnvel þegar þú ferð á netið þá er enn hægt að finna WOW-fargjöld þar sem boðið er upp á 60% afslátt,“ segir Gonzalez.
Fjölskyldan er nú að reyna að fá endurgreitt en þau borguðu meira en þrjú þúsund Bandaríkjadali, um 370 þúsund krónur. Góðu fréttirnar eru þær að þau greiddu með greiðslukorti og því eiga þau von á að fá endurgreitt frá kreditkortafyrirtækinu.
Jennifer Gonzalez segir að það taki 30 til 45 daga að fá svar frá kortafyrirtækinu og ekki er enn víst hvort þau fá að fullu endurgreitt.