„Það eru bara rétt rúmar tvær vikur síðan Þórarinn [Ævarsson] sagði starfi sínu lausu, þannig að aðdragandinn var ekki langur,“ segir Stefán Rúnar Dagsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi, við mbl.is. Stefán er 45 ára gamall en hann hefur unnið í IKEA síðan hann var 18 ára.
Fram kemur í tilkynningu að Stefán hafi gegnt stöðu verslunarstjóra undanfarin 11 ár og jafnframt verið aðstoðarframkvæmdastjóri undanfarin þrjú ár. Hann hefur unnið lengur fyrir eigendur IKEA en í þau 27 ár sem hann hefur starfað hjá fyrirtækinu.
„Ég hef unnið fyrir eigendur IKEA síðan ég var 13 ára. Ég byrjaði sem kerrustrákur í Hagkaup, sem þeir áttu á þeim tíma, og frá 18 ára aldri hef ég verið hjá IKEA, fyrst með skóla og svo í fullu starfi,“ segir Stefán.
„Ég þekki þetta alveg ágætlega,“ bætir hann við.
Spurður hvort það fylgi því ekki ákveðin pressa að taka við af jafn vinsælum framkvæmdastjóra og Þórarni segir Stefán að það fylgi því alltaf pressa að vera framkvæmdastjóri hjá jafn stóru fyrirtæki og IKEA á Íslandi er.
Þórarinn hefur verið ófeiminn við að segja skoðanir sínar á ýmsu, til að myndu háu verði matar hér á landi. Stefán býst ekki við því að hafa sig jafn mikið í frammi og Þórarinn.
„Ég býst ekki við að tjá mig opinberlega eins mikið og hann hefur gert. Ég er ekki mikið fyrir sviðsljósið en það er ekki endilega verra,“ segir Stefán.
Nýi framkvæmdastjórinn segir að engar breytingar séu væntanlegar á IKEA. Markmiðin séu áfram þau sömu; bjóða upp á ódýrasta verð á markaði, gera vel við starfsfólk og viðskiptavini og sýna samfélagslega ábyrgð. Engar verðhækkanir fylgi komu hans í stöðu framkvæmdastjóra:
„Fólk þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því. Við munum halda þeirri stefnu áfram eins og er um allan heim í IKEA. Það er að selja sem mest magn og fá minna út úr hverri einingu,“ segir Stefán. Hann kveðst ekki vita hvað Þórarinn tekur sér nú fyrir hendur þegar hann kveður IKEA eftir 14 ár:
„Eina sem ég veit er að hann ætlar að slappa af og njóta lífsins eftir 14 annasöm ár.“