Stefán Rúnar Dagsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi. Stefán hóf fyrst störf hjá IKEA fyrir 27 árum og hefur gegnt stöðu verslunarstjóra undanfarin 11 ár, og jafnframt verið aðstoðarframkvæmdastjóri undanfarin þrjú ár.
Hann gjörþekkir rekstur fyrirtækisins, enda hefur hann sinnt ýmsum störfum innan þess á starfsferlinum og einnig tekið þátt í uppbyggingu IKEA-verslana erlendis, að því er segir í fréttatilkynningu frá IKEA. Stefán er giftur Rut Gunnarsdóttur og þau búa í Kópavogi ásamt tveimur börnum sínum.
Fyrsta IKEA-verslunin á Íslandi var opnuð árið 1981 í Hagkaup í Skeifunni en flutti í núverandi húsnæði í Kauptúni árið 2006. Starfsmenn fyrirtækisins eru nú um 450. Eigendur IKEA á Íslandi reka einnig IKEA-verslanir í Litháen og Lettlandi, og opnun er fyrirhuguð í Eistlandi.