„Ég mun aldrei hika eitt augnablik við að fljúga með 737 Boeing MAX,“ segir milljarðamæringurinn og fjárfestirinn Warren Buffet. Þrátt fyrir að eiga hlutabréf í mörgum bandarískum félögum á hann ekki bréf í Boeing.
Þetta var svar Buffets við spurningu fréttamanns AFP á ársfundi fjárfestingarfélags Buffets, Berkshire Hathawaym, í Omaha í dag.
Buffett, sem er þriðji ríkasti maður heims, á meðal annars hlutabréf í Coca-Cola, JPMorgan Chase, Goldman Sachs, Apple og Amazon en ekki í Boeing þrátt fyrir að hafa fjárfest í flugfélögum.
Hann var spurður út í áhrif flugslysanna á orðspor Boeing en um 350 manns létust í tveimur flugslysum á stuttum tíma þar sem flugvélin var af 737 MAX-gerð. Í kjölfar seinna slyssins voru slíkar vélar kyrrsettar og hefur það haft áhrif á afkomu flugfélaga um allan heim.
„Flugvélar hafa aldrei áður verið jafn öruggar,“ segir Buffett og hvetur um leið forstjóra Boeing, Dennis Muilenburg, til að setja öryggi farþega alltaf í fyrsta sæti.