John Kapoor, stofnandi lyfjafyrirtækisins Insys Therapeutics var í gær fundinn sekur um að múta læknum til að ávísa ávanabindandi verkjalyfjum. Er Kapoor fyrsti yfirmaður lyfjafyrirtækis til að hljóta dóm í dómsmáli sem tengist ópíóðafaraldrinu í Bandaríkjunum.
Kviðdómur í Boston úrskurðaði Kapoor og fjóra samstarfsmenn hans seka um að hafa komið sér saman um að múta læknum til að fá þá til að ávísa ávanabindandi verkjalyfjum, jafnvel þó sjúklingarnir þyrftu ekki alltaf á þeim að halda. Var Kapoor, sem er fyrrverandi milljarðamæringur, fundinn sekur um að fjárglæfrasamsæri fyrir hlut sinn í áætluninni. Hún fól einnig í sér að afvegaleiða tryggingafélög varðandi þörf sjúklinga fyrir verkjalyf og var það gert í því skyni að auka sölu á Subsys, sem er fentanyl-lyfjaúði fyrirtækisins.
Tugir þúsunda dauðsfalla í Bandaríkjunum má rekja til of stórra ópíóðaskammta.
Kapoor, stofnaði Insys Therapeutics árið 1990 og nam velta fyrirtækisins milljörðum dollara árið 2017 þegar Kapoor var handtekinn. Var hann raunar handtekinn sama dag og Donald Trump Bandaríkjaforseti, lýsti yfir neyðarástandi í landinu vegna ópíóðafaraldurins.
Segir BBC Kapoor og fjórmenningana sem ákærðir eru með honum, þá Michael Gurry, Richard Simon, Sunrise Lee og Joseph Rowan eiga yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi.
Í yfirlýsingu frá lögfræðingi Kapors segir að hann sé „vonsvikinn“ með úrskurðinn. Allir sakborningarnir höfðu lýst sig saklausa af ákærunum og hafa gefið í skyn að þeir muni áfrýja dóminum.