Tók við afar vandasömu verkefni 1979

Hörður Sigurgestsson, forstjóri Eimskipafélagsins, var kjörinn maður ársins í íslensku …
Hörður Sigurgestsson, forstjóri Eimskipafélagsins, var kjörinn maður ársins í íslensku atvinnulífi árið 1998.

Í sérstökum þætti af Viðskiptapúlsinum, hlaðvarpsþætti ViðskiptaMoggans, ræðir Stefán Einar Stefánsson fréttastjóri við Guðmund Magnússon, sagnfræðing og Erlend Hjaltason, fyrrum forstjóra Eimskipafélagsins, um arfleið og áhrif Harðar Sigurgestssonar, fyrrum forstjóra Eimskipafélags Íslands á íslenskt viðskiptalíf. Eru þeir Guðmundur og Erlendur sammála um að áhrifa Harðar gæti enn á því sviði íslensks samfélags, jafnvel þótt nú séu brátt tveir áratugir frá því að Hörður lét af störfum. 

„Hann var ráðinn til að gera grundvallarbreytingar á rekstri og starfsemi félagsins. Ég held að menn hafi gert sér grein fyrir því alveg frá upphafi að það hafi verið komið að ákveðnum tímamótum. Og þess vegna var þetta verkefni sem var ákaflega spennandi fyrir ungan stjórnanda að ég held en líka mjög viðkvæmt og erfitt eða vandmeðfarið,“ segir Guðmundur m.a. í þættinum.

Sá stjórnunarstíll sem Hörður beitti í starfi markaði tímamót í íslensku viðskiptalífi en hann tók við starfinu árið 1979. Á þeim tímapunkti stóð félagið á tímamótum.

„Það var ekki auðvelt verk sem hann tók sér fyrir hendur þegar hann var ráðinn forstjóri 1979 vegna þess að Eimskip var rótgróið fyrirtæki og það hafði mjög sterkar rætur í íslensku þjóðlífi og raun og  veru líka íslenskri þjóðarsál vegna uppruna síns og sögu,“ segir Guðmundur sem skrifaði sögu Eimskipafélagsins.

Hörður Sigurgestsson var lengi stjórnarformaður Flugleiða.
Hörður Sigurgestsson var lengi stjórnarformaður Flugleiða. mbl.is/Golli

Þá rekur Erlendur persónulega reynslu sína af stjórnunarstíl Harðar sem hann sagði hafa verið formfastan. Hann hafi hins vegar ekki týnt sér í smáatriðum en fremur fylgt því eftir að þau verkefni sem lögð voru fyrir væri leyst farsællega.

„Hann var ekki mikið í smátatriðunum en hann lagði línurnar og það var mjög fast fundakerfi í félaginu. Það voru sölufundir, flutningafundir og svo framkvæmdastjórafundir. Þetta kerfi allt saman var keyrt í gegnum svona föst módel enda held ég að við hefðum aldrei náð þessu ef við hefðum gert þetta einhvern veginn mikið öðruvísi því það þurfti að hafa mikla yfirsýn yfir þetta,“ segir Erlendur um stjórnunaraðferðir Harðar og ítrekar að hann hafi verið mjög góður verkstjóri.

Hannes Þ. Hafstein, Hörður Sigurgestsson, Garðar Þorsteinsson, Þórður Sverrisson og …
Hannes Þ. Hafstein, Hörður Sigurgestsson, Garðar Þorsteinsson, Þórður Sverrisson og Þórður Magnússon bera saman bækur sínar í kjölfar þess að MS Kampen, þýskt leiguskip Eimskipafélagsins fórst undan Suðurlandi í byrjun nóvembermánaðar 1983. Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon

Hörður Sigurgestsson var fæddur 2. júní 1938 í Reykjavík. Hann lést rúmlega áttræður á öðrum degi páska, 22. apríl 2019.

Viðskiptapúlsinn má nálgast í spilara hér fyrir neðan en hann má einnig nálgast á hlaðvarpsveitum Spotify og Itunes.

Hörður Sigugestsson var forstjóri Eimskipafélags Íslands frá 1979 til ársins …
Hörður Sigugestsson var forstjóri Eimskipafélags Íslands frá 1979 til ársins 2000. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK