Isavia mun mótmæla nýrri aðfararbeiðni bandaríska flugvélaleigufyrirtækisins ALC sem lögð var fram í Héraðsdómi Reykjaness í dag þar sem þess er krafist að farþegaþota í eigu fyrirtækisins og í leigu hjá WOW air, sem nú er kyrrsett á Keflavíkurflugvelli, verði látin laus.
Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag hefur ALC lagt fram nýja aðfararbeiðni vegna málsins, á þeim forsendum að búið sé að greiða skuldir þotunnar í samræmi við úrskurð héraðsdóms frá því í síðustu viku.
Í úrskurði dómsins sagði að Isavia mátti aftra brottför vélarinnar vegna þeirra gjalda sem tengjast vélinni sjálfri. Það félli ekki yfir aðrar skuldir WOW air við Isavia, en kyrrsetning vélarinnar átti að vera trygging fyrir um tveggja milljarða skuld WOW air við Isavia.
Skuldin sem tengdist þessari vél var metin um 87 milljónir og var greidd í morgun, sem ALC telur uppfylla úrskurð héraðsdóms og því eigi vélin að vera látin laus.
Isavia kærði úrskurð Héraðsdóms Reykjaness til Landsréttar á föstudag og segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, að þessari nýju aðfararbeiðni verði mótmælt á þeim forsendum að málið sé nú til meðferðar hjá Landsrétti þar sem tekið er fyrir sama atriði.