Isavia telur að greiðsla flugvélaleigufyrirtækisins ALC, vegna skuldar farþegaþotu sem hefur verið kyrrsett á Keflavíkurflugvelli frá gjaldþroti WOW air, sé hvorki fullnaðargreiðsla vegna skulda WOW air né fullnægjandi trygging.
Þetta segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, við mbl.is.
„Staða málsins er óbreytt,“ segir Guðjón. „Flugvélin er áfram kyrrsett vegna skulda WOW, sem nema rúmum tveimur milljörðum króna,“ bætir hann við.
Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá því á fimmtudag sagði að Isavia væri heimilt að aftra brottför vélarinnar vegna þeirra gjalda sem tengjast vélinni sjálfri.
Það félli ekki yfir aðrar skuldir WOW air við Isavia, en kyrrsetning vélarinnar átti að vera trygging fyrir um tveggja milljarða skuld WOW air við Isavia. Skuldir þessarar vélar voru hins vegar um 87 milljónir króna.
Guðjón segir að forsendur í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness hafi verið misvísandi og af þeim sökum hafi Isavia kært úrskurðinn til Landsréttar. „Við teljum mikilvægt að fá niðurstöðu í málið á æðra dómstigi.“