Innan Icelandair er nú unnið að því að endurskoða stefnu félagsins varðandi flugvélaflota til framtíðar. Meðal annars er skoðað að skipta alfarið yfir í Airbus flugvélar, en Icelandair hefur frá upphafi notast við Boeing vélar.
Samhliða ársfjórðungsuppgjöri sem sent var út á föstudaginn og kynnt í dag var sagt frá endurskoðuninni og settar upp þrjár sviðsmyndir sem til skoðunar eru. Gert er ráð fyrir að niðurstöður vinnunnar liggi fyrir í haust.
Í sumar var áætlað að vera með 36 vélar í flugáætlun félagsins, miðað við að MAX vélarnar væru í rekstri. Í stað þeirra hefur Icelandair reyndar fengið á leigu tvær 767 breiðþotur og eina 757-200 vél. Samkvæmt langtímaflotastefnu Icelandair var gert ráð fyrir að fjölga 737-MAX, bæði 8 og 9 til ársins 2025, en fækka örlítið 757-200 vélunum. Með þessu átti að fjölga um 1-3 vélar á ári til 2025, þegar heildarfjöldinn væri kominn upp í 50 vélar.
Í sviðsmynd tvö er horft til þess að reka flugvélar frá tveimur framleiðendum, Boeing og Airbus. Þá þarf að hafa í huga að slíkt kallar á talsverðan auka kostnað vegna þjálfunar og viðhalds. Bogi segir rétt að það geti verið kostnaðarsamt en geti þó vel verið raunhæft. „Það er alveg raunhæft þegar þú ert kominn upp í 45-50 vélar. Ef þú ert með 10 vélar er eina vitið að vera með eina týpu. Þegar þú ert kominn með þennan fjölda af vélum getur þetta verið hagkvæmt þrátt fyrir aukinn kostnað, en þá þarf annað hagkvæmt að vega upp á móti,“ segir hann í samtali við mbl.is. Nefnir hann sem dæmi að mismunandi flugvélar geti verið mishagkvæmar á mismunandi leiðum og að það geti vegið upp annan kostnað.
Á uppgjörsfundinum sagði Bogi að viðræður stæðu nú yfir við báða framleiðendurna, en vildi að öðru leyti ekki tjá sig nánar um gang þeirra mála.
Í gær var greint frá því að Boeing hafi vitað af gallanum sem orsakaði tvö flugslys, bæði í Indónesíu og Eþíópíu á þessu og síðasta ári. Spurður hvort forsvarsmenn Icelandair treysti enn Boeing í frekari samskiptum við félagið í ljósi þessa svarar Bogi því jákvætt. „Já við gerum það fullkomlega. Það er mikið af greinum og fréttum sem eru misréttar, en við höfum góðan aðgang að Boeing og flugmálayfirvöldum í Bandaríkjunum og Evrópu og vinnum eftir þeim upplýsingum.“ Bætir hann við að samkvæmt þeim upplýsingum sé ákvörðunin um að gera ráð fyrir MAX vélunum aftur í rekstur 15. júlí tekin. „Við höfum fulla trú á að þetta mál leysist farsællega.“
Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstarsviðs Icelandair, sagði á fundinum að rétt sé að Boeing hafi farið af stað „á röngum fæti“ eftir að flugslysin urðu. Sagði hann að yfirvöld hefðu eytt talsverðum tíma í að stilla saman strengi vegna þessa, en að nú liti út fyrir að góðar líkur væru á að flugbanninu yrði aflétt fyrir 15. júlí, sem er sá tímarammi sem Icelandair vinnur með.
Sagði hann Icelandair fá upplýsingar frá yfirvöldum og Boeing sem ekki mætti gefa út að svo stöddu. Með þessu fengi Icelandair hins vegar mikinn sýnileika á málið í heild. Sagði hann að búið væri að leysa mest allt tæknilega varðandi það sem kom upp í slysunum. Nú snúist málið aðallega um að yfirvöld komi sér saman um hvað þurfi að gera til að heimila aftur að vélarnar fái að fara í loftið. Sagði hann að mögulega gæti þurft að breyta þjálfun flugmanna eða öðru.
Einn fundarmanna spurði Boga, í ljósi þess að farþegar gætu mögulega átt erfitt með að treysta aftur Boeing MAX Vélunum, hvort hægt væri að segja upp samningnum við Boeing um kaup á þeim vélum sem Icelandair hefur pantað með vísunar til stórra ófyrirséðra áfalla (force majeure). Bogi sagði að það yrði lögfræðimál, en að hann teldi ekki líklegt að flugfélagið færi þá leið. „Við höfum enn fulla trú á MAX vélinni,“ sagði hann og bætti við „Við teljum farþega munu treysta vélinni.“