Telur líklegt að Icelandair fái bætur

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair kynnir ársfjórðungsuppgjörið í dag.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair kynnir ársfjórðungsuppgjörið í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segist telja líklegt að Icelandair muni ná samkomulagi við Boeing varðandi bætur vegna áhrifa af kyrrsetningu 737 MAX 8 flugvéla sem Icelandair hefur keypt af Boeing. Þetta sagði Bogi við mbl.is eftir kynningarfund félagsins á ársfjórðungsuppgjöri í dag. Kostnaður Icelandair á þeim hálfa mánuði fyrsta ársfjórðungs sem kyrrsetningin náði til er metin á 3 milljónir Bandaríkjadala og segir Bogi að sá kostnaður fari vaxandi.

Kostnaður vegna kyrrsetningar allavega 3 milljarðar

Icelandair tilkynnti á föstudaginn um að breytingar á flugáætlun vegna kyrrsetningar MAX-flugvélanna myndi vara um mánuði lengur en áður hafði verið áformað. Var breytingatímabilið fært til 15. júlí í stað 16. júní sem áður hafði verið miðað við. Þar með yrði breytingatímabilið samtals fjórir mánuðir og kostnaðurinn að lágmarki 24 milljónir dala, eða tæpir þrír milljarðar. Bogi segir hins vegar að kostnaðurinn vegna þessa sé meiri yfir sumarið þegar háönn sé.

Icelandair tapaði 6,7 milljörðum á þessum fyrsta ársfjórðungi og hefur tapað samtals 13,5 milljörðum á síðasta hálfa ári. Bogi sagði á fundinum að þetta væri í takt við væntingar félagsins, „en engan veginn ásættanlegt.“ Sagði hann fjárhagsstöðu félagsins sterka og að hún myndi styrkjast í maí þegar PAR capital managment sjóðurinn kæmi inn sem nýr hluthafi í maí. Sagði hann félagið vel í stakk búið til að takast á við sveiflur í rekstarumhverfinu.

Boeing 737 MAX-8 þota Icelandair. Kyrrsetning vélanna kostaði 3 milljónir …
Boeing 737 MAX-8 þota Icelandair. Kyrrsetning vélanna kostaði 3 milljónir dala, eða um 360 milljónir yfir hálfan mánuð.

Spáir enn meiri samþættingu í Evrópu

Bogi fór einnig yfir þá samþættingu sem hafi orðið í fluggeiranum í Evrópu að undanförnu og sagði að hann teldi að sú þróun myndi halda áfram. Þannig hefðu mörg flugfélög hætt rekstri undanfarið, meðal annars WOW air, Airberlin, Primera, Monarch, Germania o.fl. Nefndi hann að í Bandaríkjunum væru fjögur flugfélög með 75% markaðarins á meðan 23 flugfélög í Evrópu væru með sömu markaðshlutdeild. Þegar horft væri til flugfélaga sem væru með 99% markaðshlutdeild væri fjöldi flugfélaga í Bandaríkjunum 10, meðan þau væru 81 í Evrópu. Sagði hann að enn ætti eitthvað eftir að gerast á Evrópumarkaðinum.

Með gjaldþroti WOW air segir Bogi að markaðurinn með flugfargjöld sé orðinn eðlilegri en áður. „Það voru aðilar á markaðinum sem voru að selja fargjöld undir kostnaðarverði eins og kom svo í ljós með gjaldþroti WOW air. Við teljum að markaðurinn sé orðinn eðlilegri í dag og ekki verið að selja fargjöld í stórum stíl langt undir kostnaðarverði,“ segir hann.

Segir flugfargjöld Icelandair sjálfbær í dag

Spurður hvort hann telji fargjöld Icelandair vera sjálfbær miðað við stöðuna núna segir Bogi svo vera. „Við höfum ekki breytt neinu í okkar fargjaldastrúktúr. Þetta snýst bara um framboð og eftirspurn. Nú er heildarframboðið minna og eftirspurnin nokkuð sterk þannig að ódýrustu sætin fara nokkuð hratt. Þegar fólk er að skoða að bóka flug þá eru bara færri ódýr sæti eftir en var fyrir til dæmis sex mánuðum síðan,“ segir hann og vísar þar meðal annars til talna frá Hagstofunni í síðasta mánuði sem sögðu flugfargjöld hafa hækkað um rúmlega 20% milli mánaða. „Við teljum að fyrir okkar félag séu horfurnar fínar, sem þýðir í raun að fargjöld og annað séu sjálfbær,“ bætir hann við.

Sem fyrr segir hefur tap síðustu 6 mánaða verið samtals 13,5 milljarðar. Spurður til hvaða aðgerða félagið muni grípa til að snúa þessu við segir Borgi að hafa þurfi í huga að fyrsti og síðasti ársfjórðungar séu veikustu ársfjórðungar ársins. „Þeir eru yfirleitt alltaf í tapi vegna árstíðarsveiflunnar. Undirbúningsvinna vegna sumarsins er í gangi, en svo koma tveir fjórðungar sem verða miklu betri. Það verða allt aðrar tölur í október,“ segir hann.

Verkefnið að auka nýtingu, lækka kostnað og bæta tekjur

Bogi segir að félagið muni engu að síður horfa til þess að lækka kostnað þar sem það sé hægt og auka tekjur. Spurður nánar út í þær aðgerðir segir hann að fjárfest hafi verið í nýju tekjustýringakerfi sem tekið var í notkun í mars. Þegar þróun hafi átt sér stað segir hann að ætlun félagsins sé að kerfið muni að öðru óbreyttu auka tekjur félagsins um 2-4% og horft er til þess að það verði að fullu innleitt í byrjun næsta árs. Bogi segir einnig að unnið sé að aukinni nýtingu rekstaraðfanga og þá þurfi að auka nýtingu fjárfestinga félagsins og starfsfólks.

Kynnti Bogi að unnið væri að nýju aðgerðaplani um að styrkja reksturinn og yrði það kynnt fljótlega. „Það dugar ekki að tala, það þarf að láta verkin tala,“ sagði hann og bætti við að félagið ætlaði að styrkja upplýsingagjöf sína varðandi aðgerðaplanið til hluthafa og birta frekari upplýsingar á næstunni.

Bogi segir félagið ætla að kynna nýja aðgerðaáætlun á næstunni.
Bogi segir félagið ætla að kynna nýja aðgerðaáætlun á næstunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eldsneytisvarnirnar neikvæðar sem stendur

Icelandair hefur verið með Icelandair hótelin í söluferli undanfarið og sagði Bogi á fundinum að það væri á lokametrunum. Átti hann von á að sú sala kláraðist á þessum ársfjórðungi, en viðræður eiga sér stað við einn kaupanda. Er gengið út frá því að Icelandair muni áfram eiga 20% í keðjunni. Þá sé Iceland travel í söluferli, en það sé þó enn á byrjunarstigi og í vinnslu með ráðgjöfum. Kom fram í ársfjórðungsuppgjörinu að afkoma Iceland travel færi versnandi.

Á síðasta ári naut Icelandair góðs af eldsneytisvörnum sínum og keypti inn eldsneyti á lægra verði vegna þeirra. Fram kom í máli Evu Sóleyjar Guðbjörnsdóttur, fjármálastjóra félagsins, að eldsneytisverð hefði á síðasta ársfjórðungi verið 6% hærra en á sama tíma í fyrra. Þá væru varnir félagsins ekki að skila neinu lengur og félagið væri að kaupa á svipuðu verði og heimsmarkaðsverðið. Í dag kostar tonnið af flugvélaeldsneyti um 670 dali. Eva Sóley sagði að félagið væri búið að tryggja um 47% af áætluðu magni næstu 12 mánuði á 701 dal, en af því leiddi að varnirnar væru neikvæðar eins og staðan væri í dag.

Nýr reikningsskilastaðall hefur áhrif

Fram kom í uppgjörinu að eiginfjárhlutfall félagsins hefði lækkað úr 32% niður í 23%. Eva Sóley útskýrði á fundinum að félagið hefði tekið upp nýjan reikningsskilastaðal sem hefði talsverð áhrif á framsetningu reikningsins. Þá hefði veiking krónunnar gegn dal upp á 16% frá sama tíma í fyrra einnig talsverð áhrif. Sagði hún að vegna breytinganna væri raunhæfara að horfa til EBIT afkomu frekar en EBITDA til að bera saman afkomuna milli ára. Á fyrsta ársfjórðungi í ár var hún neikvæð um 60 milljónir dala, en var neikvæð um 46 milljónir í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK