Heimsbyggðin hefur gengið í gegnum mjög erfiða aðlögun að breyttum aðstæðum frá því alþjóðlega efnahagskrísan skall á fyrir rúmum áratug. Ríki heimsins standa þannig frammi fyrir því að þurfa að hrinda í framkvæmd miklum kerfislægum breytingum.
Þetta sagði Mervyn King, fyrrverandi bankastjóri Englandsbanka, meðal annars í erindi sínu á fundi viðskiptadeildar Háskóla Íslands og Samtaka sparifjáreigenda sem fram fór í dag í aðalsal háskólans. Sagði hann Ísland hugsanlega eina ríki heimsins sem gerði sér grein fyrir því að kerfislægar breytingar væru nauðsynlegar til þess að takast á við stöðuna.
Vandamálið í bresku efnahagslífi væri meðal annars það að hagvöxtur byggðist of mikið á neyslu í stað þess að hvíla á sterkari útflutningsgreinum. Efnahagsbati Íslands í kjölfar efnahagskrísunnar hefði ekki síst falist í öflugri útflutningsgreinum. Það væri aftur það sem hagkerfi eins og Bandaríkin og Bretland þyrftu á að halda.
Enn fremur hefði Ísland haft peningamálastefnu sem hefði tekið mið af aðstæðum í íslensku efnahagslífi og þeim breytingum sem hafi þurft að eiga sér stað.