950 milljóna gjaldþrot jarðafélags

Félagið var úrskurðað gjaldþrota í janúar og er skiptum á …
Félagið var úrskurðað gjaldþrota í janúar og er skiptum á því nú lokið.

Aðeins tæplega 600 þúsund krónur fengust upp í 950 milljóna kröfur í félagið Landgerði sem var úrskurðað gjaldþrota í janúar á þessu ári. Fengust því aðeins 0,063% upp í almennar kröfur, en engar veð- eða forgangskröfur voru í búið. Lauk skiptum á búinu í maí og voru skiptalok tilkynnt í Lögbirtingablaðinu í dag. 

Landgerði tengdist hjónunum Guðmundi Birgissyni, kenndum við Núpa, og Unni Jóhannsdóttur, auk Margrétar Stefánsdóttur og Aðalsteins Karlssonar sem bæði voru tengd stórum heildsölum áður fyrr. Þá voru einnig fjórir minni hluthafar.

Stærstu hluthafar Landgerðis voru félögin Dyrfjöll ehf. (með 50% hlut), Fiskalón ehf. (með 18% hlut) og Aðalsteinn (með 18% hlut). Dyrfjöll urðu gjaldþrota árið 2013, en félagið var í eigu Unnar, Margrétar og annarra fjárfesta. Fiskalón er enn í rekstri og er í eigu Unnar. Aðalsteinn er fyrrverandi eigandi og stofnandi heildverslunarinnar A. Karlssonar.

Margrét er eiginkona Ingvars J. Karlssonar sem var aðaleigandi og stjórnarformaður heildverslunarinnar Karl K. Karlsson. Hann varð gjaldþrota eftir hrun, en eignir hans höfðu flestar verið færðar yfir á Margréti, meðal annars hlutur í heildversluninni, Dyrfjöllum og Lífsvali, auk fasteigna á Íslandi og í Bretlandi. Dómstólar riftu síðar þeirri ráðstöfun.

Síðasti ársreikningur Landgerðis er fyrir rekstrarárið 2016, en samkvæmt honum var lítill rekstur í félaginu síðustu tvö árin. Árið 2013 höfðu „fasteignir og jarðir“ hins vegar verið metnar á þrjá milljarða í ársreikningnum og skuldir upp á 1,16 milljarða. Ekki kemur fram í ársreikningnum hverjar eignirnar nákvæmlega voru. Árið 2014 eru eignir undir þessum lið hins vegar færðar niður í núll og eignir félagsins um 25 milljónir í formi veltufjármuna. Samhliða því eru skuldir felldar niður. Er tekjufærsla í ársreikningnum upp á 690 milljónir „vegna eftirgjafar skuldar“.

Guðmundur og Ingvar voru áður stórtækir fjárfestar, meðal annars keyptu þeir upp fjölda jarða í nafni félagsins Lífsvals ehf. Var það eitt stærsta jarðeignafélag landsins og átti 45 jarðir þegar mest lét, þar á meðal þrjú kúabú með mjólkurkvóta upp á 1,2 milljónir lítra og tvö sauðfjárbú. Landsbankinn var einn af eigendum Lífsvals og fjárhagslegur bakhjarl. Bankinn eignaðist meirihluta í félaginu árið 2012 eftir að nokkrir eigendur gátu ekki staðið við skuldbindingar sínar og seldi bankinn síðan jarðirnar.

Guðmund­ur var ann­ar um­sjón­ar­manna minn­ing­ar­sjóðs auðkon­unn­ar Sonju Zorrilla, en hún lést árið 2002 og er talið að eign­ir henn­ar hafi numið um tíu millj­örðum króna. Efnaðist hún vel á fjár­fest­ing­um á Wall Street, en sjóður­inn átti að styrkja lang­veik börn á Íslandi og í Banda­ríkj­un­um. Guðmundur var úrskurðaður gjaldþrota árið 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK