Þrotabú WOW air hefur lokið við sölu á öllum húsgögnum og öðrum lausamunum af skrifstofum félagsins og byrjað er að selja varahluti. Ekkert hefur þó mjakast áfram varðandi sölu rekstrarins og segir skiptastjóri að slík sala verði alltaf ólíklegri eftir því sem lengra líði frá gjaldþrotinu. Samtals kemur á þriðja tug starfsmanna að uppgjöri búsins.
Sveinn Andri Sveinsson, annar skiptastjóra búsins, segir í samtali við mbl.is að ákveðið hafi verið að setja í forgang að koma varahlutum sem voru í eigu annarra aðila í réttar hendur. Þá sé byrjað að selja varahluti sem WOW átti og að þeir mallist nú út. Meðal annarra stórra verkefna hjá þrotabúinu sé að vinna með stéttarfélögum við forgangskröfur, en þær felast meðal annars í launum, launatengdum gjöldum og lífeyrisgreiðslum. Hann segist ekki eiga von á skiptastjórar muni taka afstöðu til þeirra krafna fyrr en í fyrsta lagi í næsta mánuði þar sem einhverjar af þeim kröfum séu farnar að detta inn. Stóru skammtarnir séu þó enn í vinnslu hjá stéttarfélögunum. Í framhaldi af því muni ábyrgðasjóður launa líklega skoða sína kröfu í júlí eða ágúst.
Spurður hvort heildarumfang krafna sé farin að taka á sig mynd segir Sveinn að enn sé lítið um innsendar kröfur frá stærri kröfuhöfum. Hins vegar dælist inn minni kröfur frá þeim sem höfðu keypt miða hjá WOW eða voru með bótamál í gangi gegn félaginu, meðal annars vegna tafa á flugi eða skemmda á farangri. „Þetta kemur inn í gríðarlega miklu magni núna,“ segir Sveinn og á von á að fjöldi smærri krafna muni skipta þúsundum þegar upp verði staðið.
Eftir fall WOW air var talsvert talað um að endurreisn félagsins, en meðal þeirra sem skoðuðu slíkt var annars vegar Skúli Mogensen, fyrrverandi eigandi og stofnandi WOW air, og hins vegar Hreiðar Hermannsson, eigandi Stracta hotels. Hreiðar sagði síðar að hann væri fallinn frá þessum áformum. Sveinn segir að viðræður um möguleg kaup á rekstrinum hafi verið mjög rólegar að undanförnu. Segir hann alltaf einhverjar þreifingar eiga sér stað, en að ekkert sé fast í hendi þar. Segir hann að eftir því sem tíminn líði verði slík sala alltaf ólíklegri.
Auk skiptastjóranna tveggja hafa tveir fastir starfsmenn verið ráðnir til þrotabúsins. Harpa Hermannsdóttir, fyrrverandi deildarstjóri fjárstýringar WOW air, var ráðin sem framkvæmdastjóri og þá er einnig flugvirki sem sér um sölu varahluta. Til viðbótar segir Sveinn að um 10 manns hafi verið í reglulegri verktöku og til viðbótar hafi átta lögmenn komið með einum eða öðrum hætti að úrvinnslu þrotabúsins. Er þar bæði um að ræða innlenda og erlenda lögmenn. Með skiptastjórunum hafa því komið á þriðja tug starfsmanna að uppgjörinu.
Kröfulýsingafrestur í búið rennur út 3. ágúst.