Viðskiptavinir Landsbankans og Arion banka geta nú tengt kredit- og debetkort sín við Apple Pay og greitt fyrir vörur og þjónustu með iPhone, Apple Watch, iPad og Mac í verslunum, á vefsíðum, í snjallforritum og víða annars staðar hér á landi og erlendis.
Samkvæmt tilkynningum frá bönkunum vegna málsins segir að Apple Pay sé einfalt í uppsetningu og að viðskiptavinir njóti áfram allra fríðinda og trygginga sem tengjast greiðslukortum þeirra þegar greitt er með Apple Pay.
Viðskiptavinir geta tengt greiðslukort sín við Apple Pay með einföldum hætti í gegnum Arion- og Landsbanka-appið, en þar geta þeir valið að „bæta korti í Apple Wallet“.
Samkvæmt upplýsingum frá markaðsstjóra Íslandsbanka er einnig unnið að innleiðingu Apple Pay fyrir viðskiptavini bankans og ætti þjónustan að komast í gagnið á næstu vikum.