Eru lággjaldaflugfélög þess virði?

Þrátt fyrir að fall WOW air hafi verið harkalegt séu …
Þrátt fyrir að fall WOW air hafi verið harkalegt séu líkurnar á því að flugfélög verði gjaldþrota upp úr þurru hverfandi. mbl.is/​Hari

„Til þess að passa upp á ferðaáætlanir þínar, byrjaðu á að rannsaka á netinu. Fréttir af fjárhagsvandræðum WOW Air höfðu verið sagðar mánuðum saman áður en flugfélagið aflýsti flugferðum sínum.“

Þetta er meðal þess sem segir í umfjöllun New York Times um lággjaldaflugfélög, en tilefni umfjöllunarinnar er gjaldþrot WOW air sem gerði þúsundir farþega að strandaglópum beggja vegna Atlantshafsins í lok mars.

Þar segir að fall WOW air hafi dunið á á tímabili sem var einstaklega erfitt fyrir lággjaldaflugfélög, en félög á borð við Cobalt Air, Primera og Germania höfðu öll orðið undir mánuðina á undan, en erfiðleikar þeirra áttu rætur sínar fyrst og fremst að rekja til hækkandi eldsneytisverðs og of mikillar útþenslu starfseminnar.

Hverfandi líkur á gjaldþroti upp úr þurru

„Lággjaldaflugfélög hrífa ferðamenn því þau bjóða mun lægra verð en stóru flugfélögin. Flug frá London til New York getur kostað 1.000 dollara með American Airlines, British Ariways eða öðru stóru flugfélagi, á meðan sama ferðalag með lággjaldafélaginu Norwegian á sömu dagsetningum getur kostað um 600 dollara.“

New York Times gefur ferðalöngum góð ráð ætli þeir sér að ferðast með lággjaldaflugfélögum og segja að þrátt fyrir að fall WOW air hafi verið harkalegt séu líkurnar á því að flugfélög verði gjaldþrota upp úr þurru hverfandi.

Fyrsta ráðið sem ferðalöngum er gefið er að rannsaka flugfélögin sem bóka á flugferðir með fyrir fram enda hafi einföld Google-leit að WOW air borið upp fjölda umfjallana um erfiða fjárhagsstöðu félagsins og neikvæðar umsagnir viðskiptavina. Þá er ferðalöngum ráðlagt að borga flugferðir sínar með kreditkorti í stað debetkorts, enda endurgreiði kortafyrirtæki gjarnan fyrir þjónustu sem borgað hafi verið fyrir en hún ekki reidd af hendi.

Bóki nýtt flug áður en hringt er í kortafyrirtæki

Auk þess sem ferðalöngum er einnig ráðlagt, í einhverjum tilfellum, að kaupa ferðatryggingar frá þriðja aðila segir í umfjöllun New York Times að mikilvægast af öllu sé að bregðast hratt við þegar eitthvað fer úrskeiðis.

Fyrst ætti að hringja í ferðaskrifstofuna, svo ætti að hringja í tryggingafyrirtækið og loks kortafyrirtækið. Hafi ferðalangar ekki bókað ferðalög sín í gegnum ferðaskrifstofu og séu þeir ekki með ferðatryggingu ætti fyrst að bóka nýtt flug og hringja því næst í kortafyrirtækið. 

„Reynið að bóka heimferð eins fljótt og hægt er, því þið eruð líklega ekki þau einu sem eruð strandaglópar og eftirspurn er mikil. Því fyrr sem þið náið í rétta fólkið, því fyrr getur það bókað fyrir ykkur annað flug og því fyrr komist þið heim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK