Dótturfélag malasíska fjárfestingafélagsins Berjaya Corporation er við það að ganga frá kaupsamningi á 80% hlut í Icelandair Hotels.
Þetta herma heimildir ViðskiptaMoggans. Icelandair Group setti hótelfélag sitt í söluferli á síðasta ári og hugðist selja félagið í heild en mun halda eftir fimmtungshlut í því.
Stofnandi Berjaya Corporation er hinn 67 ára gamli Vincent Tan, malasískur auðkýfingur sem vakið hefur mikla athygli á síðustu árum í kjölfar kaupa hans á enska fótboltafélaginu Cardiff City.
Í febrúar síðastliðnum sendi nýstofnað dótturfélag Berjaya Corporation frá sér tilkynningu til kauphallarinnar í Kuala Lumpur þess efnis að félagið væri að ganga frá ríflega 1,6 milljarða króna kaupsamningi á fasteigninni á Geirsgötu 11 í Reykjavík, sem verið hefur í eigu félaga Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra HB Granda.