Stoðir kaupa fyrir 1,3 milljarða í Símanum

Stoðir eiga nú 8,11% í Símanum.
Stoðir eiga nú 8,11% í Símanum. mbl.is/Golli

Fjárfestingafélagið Stoðir hefur aukið við hlut sinn í Símanum, en samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar fór félagið í dag úr 4,64% hlut upp í 8,11%. Samtals eiga Stoðir nú 750 milljónir hluta í Símanum, en miðað við gengi Símans í dag er sá hlutur metinn á 3,1 milljarð. 

Mikil viðskipti hafa átt sér stað í morgun með bréf Símans, en viðskipti Stoða námu samtals um 1,33 milljörðum. Hafa bréf í Símanum hækkað um 7,3% í viðskiptum dagsins, sem nema samtals rúmlega 3 milljörðum. Líklegt er að hlutur Stoða hafi verið skráður í gegnum bækur Kviku banka, en bankinn var skráður í síðasta hluthafalista fyrir 4,67% hlut í Símanum.

Með viðskiptunum eru Stoðir nú orðinn fjórði stærsti hluthafi í Símanum, á eftir Lífeyrissjóði verslunarmanna, Gildi og Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

Stoðir, sem áður hét FL Group, hefur á undanförnum árum farið í gegnum miklar breytingar. Félagið var áður stærsti eigandi Glitnis. Í kjölfar falls bankans fór FL Group í greiðslustöðvun og nauðasamninga og eignaðist Glitnir, sem stærsti kröfuhafinn, félagið að stórum hluta. Árið 2017 urðu stórar breytingar í eigendahópi félagsins, en þá seldi Glitnir Holdco 40% hlut í félaginu og félögin S121 ehf. og S122 ehf. keyptu rúmlega helmingshlut.

Eigendur þeirra félaga voru áður lykilaðilar í FL Group fyrir hrunið. Meðal eigenda eru meðal annars Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri félagsins, og eiginkona hans Björg Fenger, Einar Arnar Ólafsson, Magnús Ármann og Örvar Kærnested. Þá eiga líka Jóhann Arnar Þórarinsson, forstjóri Foodco, og Malcolm Walker, eigandi Iceland foods í Bretlandi, hlut í félaginu.

Á síðasta ári seldu Stoðir eignarhlut sinn í drykkjarvöruframleiðandanum Refresco. Var söluverðmæti hlutar Stoða 18 milljarðar og var söluhagnaðurinn rúmlega 5 milljarðar miðað við mat á verðmæti hlutarins frá upphafi árs 2017.

Meðal annarra stórra eigna Stoða eru 4,65% hlutur í Arion banka, en sá hlutur er miðað við markaðsgengi bankans metinn á 6,7 milljarða.

Félagið er stærsti einstaki hluthafinn í Símanum fyrir utan lífeyrissjóði.
Félagið er stærsti einstaki hluthafinn í Símanum fyrir utan lífeyrissjóði. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK