Landsbankinn er fyrstur viðskiptabankanna þriggja til að bjóða upp á greiðsluleiðir fyrir allar tegundir farsíma. Nú geta viðskiptavinir hans nýtt sér Apple Pay en einnig leið sem sniðin er að þörfum þeirra sem notast við farsíma með Android-stýrikerfið.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir þá ákvörðun að efna til samstarfs við Apple á þessu sviði til þess gerða að einfalda viðskiptavinum að eiga viðskipti í verslunum, snjallforritum og netverslunum.
Spurð út í samstarfið við Apple í Morgunblaðinu í dag segir hún að Apple sé markaðsráðandi á heimsvísu í þessum efnum og því hafi legið fyrir að þessi leið væri mikilvæg til að tryggja viðskiptavinum Landsbankans sem besta þjónustu. Það sé eitt skref af mörgum sem bankinn taki þessi misserin til að tryggja sem besta þjónustu.
Nýverið birti bankinn uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung og reyndist hagnaður af starfsemi hans 6,8 milljarðar króna. Lilja Björk segir að nú sé rekstur bankans í góðu jafnvægi og horfurnar góðar.
Í frétt mbl.is um afkomu Arion banka er einnig fjallað um Apple Pay.