Eignir Björgólfs Thors Björgólfssonar, sem var áður helsti eigandi Landsbankans og Actavis, eru metnar á 1,7 milljarða punda, eða sem samsvarar tæplega 276 milljörðum íslenskra króna. Þetta kemur fram í nýjum lista Sunday Times, en blaðið birtir árlega lista yfir ríkustu íbúa Bretlands. Er Björgólfur í hópi hundrað ríkustu manna Bretlands á listanum í ár.
Auk hans eru þeir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, oft kenndir við Bakkavör, á listanum, en eignir þeirra eru metnar á 560 milljónir punda, eða sem nemur 91 milljarði króna. Dragast eignir þeirra saman um 140 milljónir punda milli ára samkvæmt umfjöllun blaðsins. Rúv greindi fyrst frá stöðu Íslendinganna á listanum í ár.
Fyrr á þessu ári var greint frá því að Björgólfur væri í sæti 1116 á list tímaritsins Forbes um ríkustu menn heims. Voru eignir hans þá metnar á 2,1 milljarð Bandaríkjadala, eða sem nemur 255 milljörðum íslenskra króna. Var þar meðal annars vísað til eigna hans í pólska fjarskiptafyrirtækinu Play og WOM frá Síle. Þá hefur hann einnig fjárfest í rafmyntum og sprotafyrirtækjum á borð við Zwift, BeamUp og Dliveroo.
Samkvæmt Sunday Times eru það Hinduja bræðurnir Srichand og Gopichand sem tróna á toppi listans í ár, en þetta er í þriðja skipti sem þeir eru taldir ríkastir. Eru auðævi þeirra metin á 22 milljarða punda, eða sem nemur 3.500 milljörðum íslenskra króna.
Jim Ratcliff, sem undanfarið hefur keypt upp fjölda eigna á Norðausturlandi er í þriðja sæti listans, en hann sat í efsta sæti í fyrra. Eru eignir hans metnar á 18,15 milljarða punda og að þær hafi dregist saman um 2,9 milljarða punda á árinu.