Starfsmenn fjármálafyrirtækja vænta þess að stýrivextir Seðlabanka Íslands muni lækka á næstu tveimur árum og að verðbólgan hjaðni á næstu misserum. Þetta kemur fram í könnun Seðlabankans á væntingum markaðsaðila fyrr í mánuðinum.
Seðlabanki Íslands kannaði væntingar markaðsaðila dagana 6. til 8. maí sl. Leitað var til 28 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 23 aðilum og var svarhlutfallið því 82%.
Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að verðbólguvæntingar markaðsaðila til skamms tíma hafi lækkað frá síðustu könnun bankans í lok janúar sl. Langtímaverðbólguvæntingar þeirra lækka einnig lítillega frá fyrri könnun.
Miðað við miðgildi svara í könnuninni vænta markaðsaðilar þess að verðbólga verði 3,3% á öðrum og þriðja fjórðungi í ár en hjaðni í 3% á fjórða ársfjórðungi. Þá vænta þeir þess að verðbólga verði 3% eftir eitt ár og 2,8% eftir tvö ár. Þeir búast jafnframt við að verðbólga verði að meðaltali 2,8% á næstu fimm árum og 2,7% á næstu tíu árum.
Verðbólguvæntingar til næstu fimm ára eru óbreyttar frá janúarkönnun bankans en væntingar til tíu ára lækka lítillega. Könnunin gefur einnig til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi krónunnar lækki lítils háttar á næstu misserum og að gengi evru gagnvart krónu verði 140 krónur eftir eitt ár.
Miðað við miðgildi svara í könnuninni búast markaðsaðilar við því að meginvextir bankans lækki í 4% á öðrum ársfjórðungi í ár og haldist óbreyttir út fyrsta fjórðung næsta árs. Þeir vænta þess að vextir lækki enn frekar á öðrum fjórðungi næsta árs og verði 3,75% eftir bæði eitt og tvö ár.
Talsverðar breytingar eru á mati svarenda á taumhaldi peningastefnunnar að þessu sinni. Í könnuninni var enginn sem taldi taumhald peningastefnunnar vera of laust um þessar mundir en í fyrri könnun bankans taldi tæpur fjórðungur svo vera. Um fjórðungur svarenda taldi taumhaldið hæfilegt nú samanborið við 57% í síðustu könnun. Aftur á móti taldi rúmur helmingur svarenda taumhaldið of þétt nú samanborið við 19% í janúarkönnun bankans auk þess sem tæpur fjórðungur svarenda taldi aðhaldið allt of þétt. Enginn þátttakenda svaraði könnuninni með þeim hætti í janúar.
Dreifing svara markaðsaðila um væntingar til verðbólgu í þessari könnun var áþekk dreifingu svara í síðustu könnun. Heildardreifing svara um væntingar markaðsaðila til vaxta jókst samanborið við síðustu könnun en bil 1. og 3. fjórðungs svara var svipað eða minna, sérstaklega til skemmri tíma. Svör þátttakenda um væntingar til vaxta og verðbólgu lágu á nokkuð lægra bili en í könnun bankans í janúar, að því er segir á vef Seðlabanka Íslands.
Til viðbótar voru markaðsaðilar spurðir um hvaða innlenda raunvaxtastig til lengri tíma myndi að þeirra mati leiða til þess að framleiðsla þjóðarbúsins væri í takt við langtímaframleiðslugetu þess og verðbólga væri við markmið Seðlabankans. Miðgildi svara var 1,25% og staðalfrávik um 0,36 prósentur. Til samanburðar var sama spurning borin upp fyrir þátttakendur í ágúst 2014 og var miðgildi svara þá 3%.