Bandaríska flugfélagið Delta Air Lines byrjar næsta föstudag, 24. maí, að fljúga aftur milli Íslands og Minneapolis í Bandaríkjunum. Flogið verður daglega milli þessara áfangastaða til 3. september, en þetta er þriðja sumarið í röð sem Delta býður upp á þessa flugleið.
„Alls býður Delta 5.400 flugsæti á viku milli Íslands og Bandaríkjanna í sumar, þegar eftirspurnin er hvað mest,“ er haft eftir Roberto Ioriatti, framkvæmdastjóra Atlantshafsflugs Delta Air Lines, í fréttatilkynningu. Flugfélagið flýgur allt árið til JFK-flugvallar í New York.
Fram kemur í tilkynningunni að Bandaríkjamenn séu fjölmennastir erlendra ferðamanna hér á landi, en frá því í mars 2018 til febrúar á þessu ári komu 685.000 Bandaríkjamenn til Íslands með flugi.