Haldist verðbólguvæntingar óbreyttar eða lækka og samdráttur verður í efnahagslífinu sem útlit er fyrir má leiða að því líkur að til frekari vaxtalækkana Seðlabankans gæti komið. Þetta kom meðal annars fram í máli Más Guðmundssonar seðlabankastjóra á kynningarfundi í morgun á nýjum Peningamálum bankans, en vextir voru lækkaðir í morgun um 0,5% í 4%.
Már var spurður að því hvort vaxtalækkunin í morgun fæli í sér skýr skilaboð um frekari lækkun vaxta. Sagði hann að auðvitað væri lækkunin ákveðin skilaboð um það. Með því að kjarasamningar náðust og verðbólguvæntingarnar fóru niður á nýjan leik hafi svigrúmið aukist til þess að nota peningastefnuna til að mæta því sem kunni að koma.
„Svo verður bara að koma í ljós hvað það er sem nákvæmlega kemur,“ sagði Már. Eðli málsins samkvæmt væri ekki vitað nákvæmlega hvernig þróunin ætti eftir að verða varðandi verðbólguna, fasteignamarkaðinn og efnahagssamdráttinn sem slíkan. Fyrir vikið væri beðið eftir nýjum tölum á næsta fundi peningastefnunefndar Seðlabankans.
„En ef að verðbólguvæntingarnar haldast þarna og lækka eitthvað og við erum að fara inn í þennan samdrátt sem spáð er þá er náttúrulega hægt að leiða að þeim líkum að frekari vaxtalækkanir séu framundan, allavega svona til styttri tíma,“ sagði Már ennfremur.