Jarðvarmi slhf., félag í eigu fjórtán íslenskra lífeyrissjóða, hefur nýtt forkaupsrétt sinn og keypt 53,9% hlut í HS Orku af Innergex ásamt því að kaupa 12,7% hlut fagfjárfestingasjóðsins ORK í félaginu. Samhliða þessu hefur Jarðvarmi fengið erlenda félagið Ancala Partners til samstarfs, en það félag mun í framhaldinu kaupa 50% hlut í HS Orku á móti Jarðvarma. Fyrir átti Jarðvarmi 33,4% hlut í HS Orku.
Samkvæmt tilkynningu frá Jarðvarma er kaupverð á samtals 66,6% hlut í HS orku 47 milljarðar. Samkvæmt því er verðmat HS Orku 70,5 milljarðar.
Samhliða þessu mun nýtt félag, Blávarmi slhf., sem er í eigu sömu lífeyrissjóða og Jarðvarmi eignast 30% hlut HS Orku í Bláa lóninu. Kaupverð eignarhlutarins er um 15 milljarðar króna.
Ancala Partners er breskt sjóðastýringarfyrirtæki sem sérhæfir sig í evrópskum innviðafjárfestingum, að því er segir í tilkynningunni.
Ráðgjafar Jarðvarma í þessum viðskiptum voru Arctica Finance, SKR lögfræðiþjónusta og Advel lögmenn