Í skýrslu Seðlabanka Íslands um veitingu þrautavaraláns til Kaupþings 6. október 2008 og eftirmál þess, segir að engin gögn hafi fundist sem túlka megi sem lánsbeiðni frá Kaupþingi, þar sem fram komi óskir um lánsfjárhæð, lánstíma og önnur lánskjör ásamt upplýsingum um það hvernig nýta ætti lánsféð.
Í skýrslunni kemur fram, að fjárhæðin 500 milljónir evra, virðist hafa þegar verið nefnd í samtölum utan Seðlabankans og það að eignarhluturinn í FIH-bankanum yrði lagður fram sem trygging.
„Ekki leikur þó vafi á að sjálf ákvörðunin var tekin af bankastjórn Seðlabankans að höfðu samráði við forsætisráðherra. Það hefur verið staðfest í fréttatilkynningum síðar og a.m.k. tveir bankastjórar unnu að undirbúningi ákvörðunarinnar. Ekki var þó gerð skrifleg bankastjórnarsamþykkt um lánveitinguna en slíkar samþykktir liggja fyrir um margvíslegar ákvarðanir Seðlabankans. Aðstæðurnar á þessum tíma og sá hraði sem málið var unnið kunna að skýra það af hverju engin formleg samþykkt var gerð. Ákveðið var að lánstíminn yrði fjórir dagar að beiðni lántaka og vextirnir 9,40% sem jafngilti millibankavöxtum á evrusvæðinu að viðbættum 5 prósentum.“
Þá kemur fram, að hljóðritun símtals milli Geirs H. Haarde forsætisráðherra og Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabankans og núverandi ritstjóra Morgunblaðsins, sem hófst kl. 11.57 6. október 2008, beri með sér að áður hafi verið rætt að Kaupþingi yrði veitt lán að fjárhæð 500 milljónir evra.
Í símtalinu komi fram að ef Kaupþingi yrði lánað, þá gæti Seðlabankinn ekki jafnframt lánað Landsbanka Íslands.
Strax að loknu samtali Geirs og Davíðs hafði Davíð samband við Hreiðar Má Sigurðsson, þáverandi bankastjóra Kaupþings. Að því búnu gaf Davíð starfsfólki Seðlabankans fyrirmæli um að ganga frá veðtökunni og útgreiðslu lánsfjárhæðarinnar. Haft var samband við tvo bankastjóra danska seðlabankans, til að fá álit þeirra á því hvort FIH væri traust veð fyrir skammtímaláni að fjárhæð 500 milljónir evra. Þeir töldu svo vera, að því er segir í skýrslu SÍ.
Varðandi ráðstöfun þrautavaralánsins segir í skýrslunni, að af hálfu Seðlabankans hafi Kaupþingi engin skilyrði verið sett fyrir ráðstöfun lánsfjárhæðarinnar. Hún bættist því við laust fé bankans 6. október 2008 sem hann ráðstafaði samkvæmt eigin ákvörðunum. Fram kemur, að í Seðlabankanum hafi engar upplýsingar verið að finna um ráðstöfun lánsfjárins.
„Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er haft eftir Hreiðari Má Sigurðssyni, forstjóra Kaupþings þegar hann er spurður um ráðstöfun fjárins „[...] stærsta einstaka greiðslan sem fer út úr bankanum er rúmlega, u.þ.b. 200 milljónir evra til sænska seðlabankans, það er stærsta einstaka, held ég, greiðslan sem fer út úr Kaupþingi þessa síðustu viku til tíu daga, annars erum við að leggja inn, „supporta“ okkur í Lúxemborg vegna innlánsáhlaups sem er þar. Það er áhlaup í Finnlandi, það er áhlaup í Noregi, það er það sem er að gerast, það eru repo-viðskiptin okkar [...)“.“
Í skýrslunni segir, að ekki sé mögulegt að draga einhlítar ályktanir um ráðstöfun þrautarvaraláns Seðlabankans á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga.
„Þær sýna þó að á þessum tíma var verið að inna af hendi greiðslur sem ella hefðu líklega leitt til falls bankans. Færslurnar bera með sér að áhlaup er í gangi á innstæður og önnur fjármögnun er að verða erfiðari sem lýsir sér í veðköllum sem væntanlega tengjast veð- og endurkaupasamningum. Samtals nema greiðslur til norræns seðlabanka, útstreymi á innstæðum og greiðslur vegna veðkalla 442 milljónum evra. Vegna greiðslna í tengslum við CLN skuldabréfið má nefna að málið er ennþá til meðferðar hjá dómstólum. Ekki er heldur hægt að draga miklar ályktanir af upplýsingum um fjárhæð gjaldeyrisviðskipta og mótaðila í þeim viðskiptum. Gera má ráð fyrir að þær færslur hafi þegar verið skoðaðar af þar til bærum aðilum,“ segir í skýrslunni.