Segir boltann nú hjá ALC

Sveinbjörn Idriðason starfandi forstjóri Isavia.
Sveinbjörn Idriðason starfandi forstjóri Isavia. Ljósmynd/ISAVIA

„Það er léttir að Landsréttur hafi fallist á okkar sjónarmið í málinu,“ segir Sveinbjörn Indriðason, starfandi forstjóri Isavia. Landsréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjaness fyrir helgi þess efnis að Isavia hafi verið heim­ilt að kyrr­setja farþega­flug­vél­ina TF-GPA í eigu flug­véla­leig­unn­ar ALC.

Fram kemur í úrskurði Landsréttar að Isavia hafi verið í fullum rétti þegar það nýtti sér heimild í lögum sem heimilar kyrrsetningu flugvéla uns gjöld eru greidd eða trygging lögð fram. Sveinbjörn er ánægður með að Landsréttur staðfesti að Isavia hafi beitt ákvæðinu með réttum hætti.

Málið snýst um það hvort Isa­via hafi verið heim­ilt að taka haldsrétt í farþegaþotu ALC vegna van­gold­inna gjalda WOW air upp á um 2 millj­arða króna eða hvort ein­ung­is hafi verið lög­um sam­kvæmt að krefjast þeirra gjalda sem bein­lín­is tengj­ast notk­un þot­unn­ar.

„Landsréttur er ekki að taka afstöðu til fjárhæðar en það er skýrt í úrskurðinum með hvaða hætti okkur er heimilt að beita þessu ákvæði; fyrir öllum skuldunum,“ segir Sveinbjörn.

Spurður um næstu skref segir Sveinbjörn að boltinn sé hjá ALC. Fram kom í máli lögmanns ALC um helgina að fyrirtækið muni óska eftir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar.

Boðið að losa vélina með bankaábyrgð

„Miðað við hvað Landsréttur er afgerandi í sínum úrskurði tel ég að við getum verið nokkuð bjartsýn á að því verði ekki snúið í Hæstarétti,“ segir Sveinbjörn.

Hann segir Isavia ekki þrýsta á að fá peningana inn strax heldur hafi ALC verið boðið að losa um vélina með bankaábyrgð. 

„Þrátt fyrir að úrskurður Landsréttar sé svona afgerandi breytir það engu um það að við þurfum ekki að fá peningana inn á bankareikning áður en vélin fer. Við þurfum bara að fá bankaábyrgð og auðvitað þarf hún að uppfylla ákveðin skilyrði.“

Spurður hvort málið geti haft slæm áhrif á orðspor Keflavíkurflugvallar svarar Sveinbjörn:

„Já og nei. Ef þú horfir á stóru myndina þá hefur þetta ákvæði verið í íslenskum lögum síðan 1964. Frá árinu 2002 hefur verið heimild til að stöðva vél í eigu leigusala, ekki bara í eigu flugfélaga. Þessum ákvæðum hefur til að mynda verið beitt í Bretlandi og Kanada og einnig höfum við beitt því áður,“ segir Sveinbjörn og nefnir þegar vél Air Berlin var kyrrsett árið 2017. 

„Þessi ákvæði hafa því verið lengi til staðar og þeim beitt á Íslandi og í öðrum vestrænum ríkjum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK