Icelandair treystir flugvélaframleiðandanum Boeing áfram þrátt fyrir að ekki sé enn ljóst hvenær hægt verður að aflétta kyrrsetningu á Boeing 737 MAX þotunum sem hafa verið kyrrsettar eftir tvö mannskæð flugslys.
Þetta kemur fram í svari Ásdísar Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair, við fyrirspurn mbl.is.
Þar kemur fram að alþjóðleg flugmálayfirvöld vandi mjög til verka í samvinnu við Boeing og að kyrrsetningunni verði ekki aflétt fyrr en allir hafa fullvissað sig um að vélin sé örugg.
„Miðað við þær upplýsingar sem við höfum um ferlið, þá lítur út fyrir að þetta muni taka lengri tíma en við gerðum ráð fyrir. Þess vegna höfum við gert ráðstafanir varðandi flugáætlun okkar til 15. september,“ kemur fram í svari Ásdísar.
Eins og fram hefur komið hefur félagið nú þegar tekið þrjár leiguvélar í notkun til þess að lágmarka áhrif kyrrsetningarinnar á farþega. Þessu til viðbótar er unnið að lokafrágangi samnings um leigu á einni Boeing 767-300 vél til viðbótar.
„Við treystum Boeing nú sem fyrr,“ er svar Ásdísar hvort Icelandair treysti flugvélaframleiðandanum áfram. Hún segir að vélar frá þeim hafi reynst Icelandair mjög vel í 80 ára sögu fyrirtækisins.
Fram kom fyrir helgi að fjárhagsleg áhrif kyrrsetningarinnar eru enn óviss. Icelandair greiðir nú af sex 737 MAX þotum, sem eru ónothæfar. Ásdís segir að ekki hafi komið til tals að hætta að greiða af vélunum.
„Við höfum hins vegar hafið samtal við Boeing um að fá allt það fjárhagslega tjón sem af kyrrsetningunni hlýst bætt.“