Icelandair segir upp flugmönnum

Icelandair tilkynnti á fundi með hópi flugmanna í þjálfun í dag að óhjákvæmilegt væri að stöðva þjálfun 21 nýliða sem til stóð að hæfu störf sem flugmenn á Boeing 737 MAX-vélum félagsins í sumar, sem og slíta ráðningarsamningi við 24 flugmenn sem hófu þjálfun á MAX-vélarnar síðasta haust og höfðu hafið störf áður en vélarnar voru kyrrsettar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair.

Þar segir enn fremur, að þessi ákvörðun hafi verið tekin í ljósi þess að félagið geri ekki ráð fyrir MAX-vélunum í flugáætlun sinni fyrr en um miðjan september nk., eins og fram kom í tilkynningu frá félaginu 24. maí.

„Það er þungbært að þurfa að grípa til þessarar sársaukafullu aðgerðar en við teljum það nauðsynlegt í ljósi þeirra erfiðu aðstæðna sem komnar eru upp vegna kyrrsetningar Boeing 737 MAX-vélanna,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningunni.

„Kyrrsetningin hefur talsverð neikvæð áhrif á rekstur félagsins og við verðum að leita allra leiða til að hagræða og draga úr kostnaði. Við vonumst þó til að geta gefið þessum flugmönnum kost á starfi hjá fyrirtækinu á ný þegar undirbúningur fyrir næsta sumar fer af stað en það kemur betur í ljós þegar málin skýrast varðandi MAX-vélarnar,“ segir hann enn fremur.

Þá kemur fram, að Icelandair muni bjóða aðstoð við atvinnuleit í samstarfi við ráðningastofu en einhverjir flugmannanna sem hafa til þess tilskilda þjálfun eigi kost á að fara í önnur störf hjá félaginu, t.d. sem flugliðar, flugumsjónarmenn eða í önnur störf.

Í nóvember í fyrra störfuðu 4.500 manns hjá Iceland­ir Group. Þar af voru 3.300 hjá Icelanda­ir og voru þá meðtald­ir um 900 starfs­menn IGS sem færðust und­ir Icelanda­ir í ár. 



mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK