Íslendingar í dauðafæri þegar kemur að umhverfismálum

Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa grænna lausna og Svana Helen …
Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa grænna lausna og Svana Helen Björnsdóttir, stofnandi Stika. Arnþór Birkisson

Umhverfisstjórnun sem byggist á nýjustu tæknilausnum er framtíðin að mati Jóns Ágústs Þorsteinssonar, forstjóra Klappa grænna lausna. Í liðinni viku rann upplýsingatæknifyrirtækið Stiki inn í Klappir og eru Jón Ágúst og Svana Helen Björnsdóttir, stofnandi Stika, sammála um að sameinað fyrirtæki bjóði upp á heildstæðari og breiðari umhverfislausnir en nokkurt annað fyrirtæki sem þau vita um. Þau eru einnig sammála um að Íslendingar séu í dauðafæri þegar kemur að því að hasla sér völl á nýju sviði sem einblínir á umhverfis- og loftslagsmál.

Í liðinni viku var tilkynnt um samruna fyrirtækjanna Stika ehf. og Klappa grænna lausna hf. Fyrirtækin hafa fram til þessa átt farsælt samstarf á sviði hugbúnaðarlausna til áhættumats og áhættustjórnunar en forstjórar þeirra telja mikil tækifæri felast í því að leiða þau saman og byggja upp sterkari heild.

Klappir grænar lausnir hf. var skráð á First North-markaðinn í Kauphöll Íslands árið 2017 en fyrirtækið varð til við sameiningu þriggja fyrirtækja sem hvert á sinn hátt starfaði á sviði umhverfisstjórnunar. Jón Ágúst Þorsteinsson hefur verið forstjóri fyrirtækisins frá upphafi og hann mun einnig leiða fyrirtækið eftir samrunann við Stika.

„Þegar við fórum í Kauphöllina sameinuðum við Klappir grænar lausnir, Datadrive og Ark Technology. Við það sköpuðust tækifæri til að byggja upp heildstæðar tæknilausnir á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Sameining fyrrnefndra fyrirtækja færði okkur nær því markmiði. Ark Technology var með lausnir fyrir skip, Datadrive fyrir bílaflotann og Klappir grænar lausnir fyrir starfsemi í landi. Með sameiningu þessara fyrirtækja náðum við að bjóða heildstæðari lausnir,“ segir Jón Ágúst.

Og hann segir að eftirspurnin eftir heildstæðum lausnum og þjónustu af þessu tagi hafi þá þegar verið komin fram hjá viðskiptavinum fyrirtækjanna.

„Þetta voru mörg öflug fyrirtæki á borð við HB Granda og Eimskip. Þau vildu ná betur utan um umhverfismálin á sínu sviði en það reyndist erfitt að finna heildstæðar lausnir.“

Skráningin algjört lykilatriði

Jón Ágúst segir að sameining fyrirtækjanna þriggja hafi tekist vonum framar og sú ákvörðun að skrá sameinað félag á markað hafi einnig reynst mikið heillaskref.

„En við vissum að við þyrftum að byggja framtíðina á frekari sameiningum. Með stofnun Klappa erum við í raun að búa til grundvöll fyrir frumkvöðla á sviði umhverfisstjórnunar til þess að mætast á jafningjagrundvelli. Með skráningunni á First North tryggjum við að félagið hefur markaðsverð og þeir sem koma að þessu hafa þá markaðsverðmæti í höndunum. Það gerir alla vinnu við frekari vöxt og sameiningar miklu markvissari og betri.“

Svana Helen Björnsdóttir stofnaði Stika árið 1992. Með verkfræðigráðu frá Þýskalandi í farteskinu byggði hún upp fyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu tvenns konar hugbúnaðar, annars vegar til áhættustjórnunar og hins vegar til mats á heilsufari fólks. Stiki hafði, eins og áður sagði, átt í góðu samstarfi við Klappir en Svana Helen segir að fyrir um hálfu ári hafi þau Jón Ágúst tekið upp samtal um mögulegan samruna fyrirtækjanna.

„Við sáum mikil tækifæri til sameiningar. Samtalið leiddi svo til þess að Klappir kaupa Stika og úr verður fyrirtæki sem býður upp á enn heildstæðari lausnir en áður,“ segir Svana Helen en hún bætir því auk þess við að hún hafi frá upphafi haft mikla trú á Klöppum.

„Ég gerðist strax hluthafi í Klöppum þegar það bauðst. Ég er mjög hrifin af nálgun þeirra á sjálfbærni og umhverfismál og mér finnst líka mjög mikilvægt að starfsemin hefur háleitara markmið en aðeins það að stunda viðskipti. Þarna er verið að vinna á grundvelli mikilvægra hugsjóna í þágu umhverfis og náttúru. Við viljum auðvelda fólki og fyrirtækjum að uppfylla heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og viljum búa til réttu tæknilausnirnar til þess.“

Lesa má viðtalið í heild sinni á miðopnu ViðskiptaMoggans í dag. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK