Íslenskir einkafjárfestar og lífeyrissjóðir fara nú með meirihluta hlutafjár í félagi sem stendur að byggingu fimm stjörnu Marriott Edition-hótels sem rís nú við hlið Hörpu í Austurhöfn. Þetta kemur fram í Markaðnum, viðskiptablaði Fréttablaðsins, í dag.
Hópurinn, sem er undir forystu framtakssjóðs í rekstri Stefnis, lagði félaginu til 11 milljónir dala, jafnvirði 1,3 milljarða króna, í nýtt hlutafé í fyrra og eignaðist þá 66 prósenta hlut í verkefninu.
Samkvæmt heimildum Markaðarins er áformað að endanlegur hlutur Íslendinganna í verkefninu – í gegnum félagið Mandólín – verði um 70 prósent á móti 30 prósenta hlut bandaríska fasteignaþróunarfélagsins Carpenter & Company.
Íslensku fjárfestarnir lögðu fyrr á árinu Cambridge Plaza Venture Company, móðurfélagi hótelfélagsins, einnig til um sex milljónir dala í nýtt hlutafé, eftir því sem heimildir Markaðarins herma, en þeir hafa skuldbundið sig til að setja 14 milljónir dala til viðbótar í félagið.
Samkvæmt frétt Viðskiptamoggans frá því í fyrra eiga íslenskir lífeyrissjóðir talsverða hagsmuni bundna í hótelbyggingu sem nú er verið að slá upp við hlið Hörpu í Austurhöfn.
„ Í gegnum net eignarhaldsfélaga halda þeir ásamt fleiri íslenskum fjárfestum á 38,5% hlut í verkefninu sem nú stefnir í að muni kosta hátt í tvo tugi milljarða króna. Verðmiðinn á hótelbyggingunni hefur rokið upp á undanförnum mánuðum þar sem í ljós hefur komið að þær forsendur sem verkfræðistofan Mannvit lagði til grundvallar kostnaðarútreikningum hafa engan veginn staðist.
Á sama tíma og leitað er lausna við hinum stóraukna kostnaði við framkvæmdina hefur sterkara gengi krónu sett strik í reikninginn. Þannig kemur meirihluti eiginfjárframlagsins til verkefnisins frá aðilum utan landsteinanna. Gengisstyrkingin veldur því að mun færri krónur fást fyrir framlagið sem þessir aðilar hafa heitið til verkefnisins í erlendri mynt.
Fyrirtækið sem stendur að byggingu hótelsins, og hyggst framleigja húsnæðið til Marriott Edition-keðjunnar þekktu, nefnist Cambridge Plaza Hotel Company ehf. Það félag er í 100% eigu Cambridge Plaza Port Company ehf. Það félag er svo aftur í 100% eigu Cambridge Plaza Port Venture Company ehf. Það félag er aftur í eigu tveggja félaga, annars vegar hollenska félagsins Cambridge Netherlands Investors B.V. og hins vegar Mandólíns ehf.
Fyrrnefnda félagið mun vera í eigu bandaríska fasteignaþróunarfélagsins Carpenter & Company og Eggerts Þórs Dagbjartssonar, sem á síðustu áratugum hefur verið umsvifamikill í fasteignaviðskiptum í Bandaríkjunum. Viðskiptafélagi hans, Richard L. Friedman, er forstjóri Carpenter & Company en í gegnum hann mun Bill Gates, einn auðugasti maður veraldar, koma að fjárfestingunni hér á landi. Friedman situr í stjórn Four Seasons-hótelkeðjunnar sem er í meirihlutaeigu Gates og Al-Waleeds bin Talals, prins frá Sádi-Arabíu.
Á móti hollenska félaginu Cambridge Netherlands Investors B.V. heldur félagið Mandólín ehf. á 38,5% hlut í framkvæmdinni. Stærsti eigandi þess félags er fjárfestingarsjóðurinn SÍA III, sem er í rekstri sjóðastýringafyrirtækisins Stefnis. Stefnir er í eigu Arion banka, sem er aðallánveitandi að verkefninu og var raunar meðal stærstu eigenda lóðarinnar sem lögð er undir hótelið. Stærsti eigandi SÍA III er Stefnir með rétt ríflega 50% hlut. Þá eiga Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi hvor sinn 7% hlutinn í sjóðnum. Þá er Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins með 4,9% líkt og Stapi lífeyrissjóður. Festa lífeyrissjóður heldur svo á 4,7% hlut.
Aðkomu að Mandólíni á einnig félagið Stormtré ehf. með 12,5% hlut en það er að 87,5% hluta í eigu Hreggviðs Jónssonar og 12,6% hluta í eigu Jóhanns Arngríms Jónssonar. Jafnstóran hlut, eða 12,5%, á Varða Capital en það félag er í eigu Jónasar Hagan Guðmundssonar og Gríms Garðarssonar. Félagið Snæból á einnig 12,5% hlut í Mandólíni en það er í jafnri eigu hjónanna Finns Reyrs Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur. Almenni lífeyrissjóðurinn á beint 6,2% hlut í Mandólíni og 5,4% hlutur er í eigu Festu lífeyrissjóðs. Aðrir hluthafar eiga minna eða samanlagt um 4,1%,“ segir í grein Stefáns Einars Stefánssonar í Viðskiptamogganum.