Þyrlur frá austurríska fyrirtækinu Heli Austria eru á leiðinni frá Íslandi og aftur til Austurríkis að hafa verið starfræktar hérlendis í vetur.
Ljósmyndari mbl.is náði mynd af tveimur vélum áður en þær áttu að fara um borð í ferjuna Norrænu á Seyðisfirði. Á leiðinni hingað til lands í vetur var þeim flogið frá Austurríkis til Danmerkur þar sem þær voru settar um borð í Norrænu.
Heli Austria var í fyrsta sinn með starfsemi á Íslandi í vetur og var fyrirtækið, sem er umfangsmikið í Evrópu, í samstarfi við hið íslenska Arctic Heli Skiing sem hefur undanfarin ár boðið upp á fjallaskíðaferðir á Tröllaskaganum.
Að sögn Geirs Gíslasonar, framkvæmdastjóra Arctic Heli Skiing, gekk samstarfið við Heli Austria eins og í sögu og nefnir hann að meðalaldurinn á þyrlunum sem komu hingað frá þeim hafi verið 9 mánuðir.
„Við höfum verið mjög heppin með veður. Það hafa ekki verið margir slæmir dagar. Það hefur verið ótrúlega mikill snjór þótt hann sjáist kannski ekki ,“ segir hann um fjallaskíðamennskuna en tímabilinu lýkur um miðjan júní. Umtalsverður fjöldi hefur nýtt sér þjónustu íslenska fyrirtækisins, að langmestu leyti útlendingar.
Sem stendur eru þrjár þyrlur frá Heli Austria enn hér á landi. Tvær þeirra verða í notkun vegna útsýnisflugs fyrir Circle Air á meðan ein verður notuð af Arctic Heli Skiing þangað til skíðatímabilinu lýkur. Engin þyrla er í eigu síðastnefnda fyrirtækisins, enda sér það eingöngu um að selja fjallaskíðaferðir.