Aukin bjartsýni á meðal fyrirtækja

Bjartsýni hefur aukist á meðal fyrirtækja upp á síðkastið.
Bjartsýni hefur aukist á meðal fyrirtækja upp á síðkastið. Ómar Óskarsson

Svo virðist vera sem bjartsýni meðal fyrirtækja hér á landi hafi aukist síðustu mánuði. Fleiri fyrirtæki telja horfur í efnahagslífinu betri en fyrir tæpum fjórum mánuðum þegar meiri órói ríkti í viðskiptalífinu hér á landi. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum samstarfsverkefnis Seðlabanka Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Gallup.

Alls tóku 207 fyrirtæki þátt í könnuninni og var þáttökuhlutfall 50,2%. Fjöldi svarenda var 207 en 205 aðilar ákváðu að taka ekki þátt í könnuninni.

Könnunin nær til sex vísitalna en það eru vísitala efnahagslífsins, vísitala efnahagslífsins síðustu 6 mánuði, vísitala neysluverðs, vísitala starfsmannafjölda, vísitala innlendrar eftirspurnar og vísitala erlendrar eftirspurnar.

Aukin bjartsýni á bættar horfur

Talsverð breyting hefur orðið á viðhorfi forsvarsmanna fyrirtækja þegar spurt er hvernig þeir telja horfur í efnhagslífinu vera. Í febrúar fyrr á þessu ári nam vísitala efnhagslífsins 91 stigi en stendur nú í 105 stigum. Þá virðast færri fyrirtæki telja horfur slæmar eða mjög slæmar.

Sé litið til lengri tíma eða sex mánaða hefur bjartsýni fyrirtækja aukist svo um munar. Vísitala efnahagslífsins til sex mánaða stendur nú í 50 stigum en var fyrir fjórum mánuðum í 22 stigum. Þá hefur hún nær fjórfaldast frá því um áramótin þegar hún stóð í 13 stigum.

Fleiri fyrirtækja líta nú bjartari augum fram veginn, en ríflega 13% fyrirtækja telja að aðstæður í efnahagslífinu verði betri eða nokkuð betri sé litið hálft ár fram í tímann.

Í næsta lið könnunarinnar voru fyrirtæki spurð hvort skortur væri á starfsfólki innan veggja fyrirtækisins. Þar er staðan nær óbreytt frá síðustu áramótum en tæplega 14% fyrirtækja telja skort á starfsfólki. Alls telja 86% fyrirtækja að nægt framboð sé á starfsfólki. Að sama skapi telja tæplega 25% fyrirtækja að starfsmönnum muni fækka nokkuð næsta hálfa árið. Af þeim sökum hefur vísitala starfsmannafjölda lækkað um rúm 12 stig síðustu fjóra mánuði eða úr 87 stigum í 75.

Þá voru forsvarsmenn fyrirtækjanna spurðir um það hvort þeir teldu að vísitala neysluverðs muni hækka eða lækka mikið á næstu 12 mánuðum en heilt yfir lækkar miðgildi vísitölu neysluverðs úr fjórum um áramótin í þrjá. Svarendur töldu einnig að verðbólga, 12 mánaða hækkun verðlags, myndi verða um 3% eftir tvö ár, en sú tala nam 3,5% í febrúar.

Vísitala innlendrar eftirspurnar hækkar um rúm 25%

Vísitala innlendrar eftirspurnar hefur hækkað talsvert síðustu fjóra mánuði, en hún hefur hækkað um 31 stig frá því um áramótin. Það er umtalsverð breyting frá síðasta ári þar sem hún lækkaði talsvert. Vísitalan stendur nú í 116 stigum en var um áramótin 85 stig. Til að mæla vísitala innlendrar eftirspurnar voru fyrirtæki spurð hvort þau ættu von á því að eftirspurn eftir vörum eða þjónustu fyrirtækisins myndi aukast, standa í stað eða minnka næstu sex mánuði. Langstærstur hluti fyrirtækjanna taldi að eftirspurnin myndi standa í stað eða 64,9%. Tæplega 20% fyrirtækja taldi að hún myndi aukast á meðan rúm 13% ráðgera að hún muni minnka næsta hálfa árið.

Vísitala erlendrar eftirspurnar stendur nokkurn veginn í stað og hefur haldist nær óbreytt frá því um mitt ár 2018. Frá því í febrúar fyrr á þessu ári hefur hún lækkað um 5 stig og stendur nú 142 stigum. Notast var við sambærilegar breytur við útreikning erlendrar og innlendrar vísitölu. Fyrirtæki voru spurð hvort þau teldu að eftirspurn eftir vörum og þjónustu fyrirtækisins á erlendum mörkuðum myndi aukast, minnka eða standa í stað næstu 6 mánuði. Alls töldu um 30% fyrirtækja að eftirspurn myndi aukast á meðan ríflega helmingur taldi að hún myndi standa í stað. Einungis 12,2% fyrirtækja taldi að eftirspurnin myndi minnka næsta hálfa árið.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK