Flugfélagið Norwegian ætlar að hefja áætlunarflug milli Íslands og Las Palmas og Tenerife í haust.
Í tilkynningu frá flugfélaginu kemur fram að 30. október mun Norwegian fljúga tvisvar í viku, á miðvikudögum og laugardögum, til Las Palmas á Kanaríeyjum. Frá 27. október mun Norwegian fljúga fimm sinnum í viku milli Keflavíkurflugvallar og Tenerife. Flogið verður á mánudögum, þriðjudögum, fimmtudögum, laugardögum og sunnudögum.
Til stendur að fljúga á báðum þessum flugleiðum út árið. Norwegian hóf áætlunarflug milli Íslands og Spánar á árinu 2016.
Haft er eftir aðstoðarforstjóra Norwegian, Magnus Thome Maursund, að með því að bæta við þessum tveimur flugleiðum milli Íslands og Spánar sé flugfélagið með leiðandi stöðu á flugferðum milli Íslands og Spánar.
Áætlunarflug Norwegian frá Íslandi:
Reykjavík – Las Palmas
Reykjavík - Tenerife
Reykjavík – Madrid
Reykjavík – Barcelona
Reykjavík – Alicante
Reykjavík - Ósló
Reykjavík – Bergen