Hæfisnefnd hefur metið fjóra umsækjendur um starf seðlabankastjóra mjög hæfa, en það eru þeir Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands, Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, Jón Daníelsson, prófessor við LSE í London, og Arnór Sighvatsson, ráðgjafi seðlabankastjóra og fyrrverandi aðalhagfræðingur og aðstoðarseðlabankastjóri. Greint er frá málinu hjá Kjarnanum.
Samkvæmt umfjöllun Kjarnans hafa umsækjendur nú frest 19. júní til að ger athugasemdir við hæfismat nefndarinnar, en það er forsætisráðherra sem að lokum skipar seðlabankastjóra.
Nefndina skipaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, en í henni sitja Sigríður Benediktsdóttir formaður, Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins, og Þórunn Guðmundsdóttir, hæstaréttarlögmaður og varaformaður bankaráðs, tilnefnd af bankaráði Seðlabanka Íslands.
Umsækjendur um starf seðlabankastjóra voru þau Arnór Sighvatsson, ráðgjafi seðlabankastjóra, Ásgeir Jónsson, dósent og forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, Ásgeir Brynjar Torfason, lektor við Háskóla Íslands, Benedikt Jóhannesson, fyrrv. fjármála- og efnahagsráðherra, Gunnar Haraldsson, hagfræðingur, Gylfi Arnbjörnsson, hagfræðingur, Gylfi Magnússon, dósent, Hannes Jóhannsson, hagfræðingur, Jón Daníelsson, prófessor, Jón G. Jónsson, forstjóri bankasýslu ríkisins, Katrín Ólafsdóttir, lektor, Salvör Sigríður Jónsdóttir, nemi, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri, Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta og fjárstýringar í Seðlabanka Íslands, Vilhjálmur Bjarnason, lektor og Þorsteinn Þorgeirsson, sérstakur ráðgjafi á skrifstofu seðlabankastjóra.