Himinhátt leiguverð er eitt af því sem fólk kvartar undan í stórborgum heimsins. Víða hafa borgaryfirvöld gripið til aðgerða til að stemma stigu við hækkunum á húsaleigu og í dag munu borgaryfirvöld í Berlín kynna sitt útspil í þessari baráttu.
Á fundi borgarráðs Berlínar síðar í dag verður væntanlega samþykkt að frysta húsaleigu í fimm ár til þess að koma í veg fyrir að fleiri flytji á brott þar sem fólk er einfaldlega að gefast upp og flytja annað. Berlín er ekki eina borgin sem hefur gripið til aðgerða að undanförnu því yfirvöld í New York-ríki samþykktu á föstudag setningu laga sem er ætlað að verja lágtekjufólk á leigumarkaði.
Samkvæmt nýju lögunum sem tóku gildi í New York-ríki er felld út heimild eigenda húsa til þess að hækka leigu þegar nýir leigjendur flytja inn. Eins er lögunum ætlað að koma í veg fyrir að þeir sem eru að taka íbúðir á leigu þurfi að greiða kostnaðarsamar framkvæmdir á íbúðum.
Að auki verður gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir að íbúðir fari úr útleigu en talið er að frá árinu 1994 hafi 300 þúsund íbúðir horfið af almennum leigumarkaði í New York-borg einni. Það hefur neytt fólk með litlar tekjur og jafnvel millistéttarfjölskyldur til þess að flytja út úr borginni með þeim afleiðingum að fjölskyldufólki fækkar stöðugt í stórborginni.
New York-borg er ein af tíu dýrustu borgum heims en talið er að nýju lögin hafi bein áhrif á um 2,4 milljónir borgarbúa af þeim 8,5 milljónum sem eru á leigumarkaði þar.
Vín í Austurríki hefur farið þá leið að stór hluti af leigumarkaðnum er á vegum hins opinbera. Þetta hefur haft þær afleiðingar að Vín þykir afar eftirsóttur kostur fyrir fólk að búa en af 1,9 milljónum borgarbúa búa sex af hverjum tíu í íbúðum sem eru í eigu borgaryfirvalda eða fyrirtækja sem ekki eru rekin í ágóðaskyni.
Borgaryfirvöld eru með þak á tekjur fólks sem getur fengið slíkar íbúðir á leigu en þakið er það hátt að fólk sem telst til millistéttar hefur einnig möguleika á að leigja þær.
Í Barcelona hefur húsaleiga hækkað mjög undanfarin ár eða um 35% frá árinu 2010 og er hækkunin einkum rakin til vinsælda borgarinnar meðal ferðamanna. Það hefur haft þau áhrif að sífellt fleiri íbúðir eru leigðar út í gegnum Airbnb eða sambærileg skammtímaleiguúrræði.
Borgaryfirvöld hafa undanfarið reynt að stöðva slíka starfsemi með því að þvinga þúsundir íbúðaeigenda, sem hafa leigt íbúðir sínar á Airbnb, án þess að vera með heimild til reksturs ferðaþjónustu, til þess að hætta útleigunni.
Eins eru þau hætt að gefa út ný slík leyfi. Jafnframt hafa yfirvöld í Barcelona ráðið fólk í vinnu við að fara yfir auglýsingar á Airbnb til þess að bera kennsl á þá sem reyna að svíkja lög um skammtímaleigu.
Þak verður sett á húsaleigu í höfuðborg Frakklands, París, um næstu mánaðamót. Þetta var einnig gert á árunum 2015 til 2017 og bætist nú við reglur sem hafa gilt í nokkur ár varðandi hækkun á húsaleiguverði þegar nýir leigjendur taka við. Bannað hefur verið um árabil að hækka leigu mjög á milli leigjenda í borginni til þess að reyna að tryggja stöðugleika á markaði.
Breytingarnar eru liður í að draga úr skammtímaleigu í gegnum Airbnb og sambærilega vefi og er stefnt að því að banna slíka skammtímaleigu í miðborginni.
Í Stokkhólmi fylgjast yfirvöld grannt með leigumarkaðnum en um 44% af leiguíbúðum eru í eigu stofnana. Gefa þarf upplýsingar um húsaleigu á hverju ári og er um samstarfsverkefni fasteignaeigenda og samtaka leigjenda að ræða.
Til þess að fá slíka íbúð á leigu þarf fólk að skrá sig á biðlista og er biðin oft löng eða allt að 20 ár. Eins er möguleiki á að vera heppinn því dregið er um einhverjar slíkar íbúðir í lottói. Sá sem fær slíka íbúð á leigu getur búið þar allt til æviloka eða jafnvel skipt á henni fyrir aðra. En til þess þarf viðkomandi að hafa gegnt herþjónustu eða starfað erlendis á vegum hins opinbera.
Aðrar íbúðir eru á almennum leigumarkaði og eru samningar háðir samkomulagi meðal annarra íbúðaeigenda í sama húsi. Samkvæmt AFP-fréttastofunni er svartamarkaðsbrask með íbúðir algengt í Stokkhólmi þar sem nánast er slegist um íbúðir á viðráðanlegu verði.
Hart hefur verið tekist á um húsaleiguverð í Berlín undanfarin misseri en ekki er langt síðan borgin hafði það orð á sér að vera fátæk en kynþokkafull. Undanfarinn áratug hefur húsnæðiskostnaður tvöfaldast í Berlín en margir hafa flutt þangað enda afar auðvelt að fá þar vinnu.
Nýju reglurnar sem verða væntanlega samþykktar í dag taka gildi á næsta ári. Talið er að þær hafi áhrif á um 1,4 milljónir fasteigna en eigendur leiguhúsnæðis hafa verið iðnir við að láta leigjendur greiða aukalega fyrir framkvæmdir á húsnæði. Með nýju reglunum verður sett þak á hversu mikið er hægt að leggja á leigjendur og í hvaða tilvikum.
Borgaryfirvöld í öðrum þýskum borgum fylgjast vel með aðgerðum yfirvalda í Berlín enda víða sama uppi á teningnum - fólk flýr úr borgunum vegna hárrar húsaleigu.